SAMKEPPNISEFTIRLITIÐ RANNSAKAR ISAVIA

  Samkeppniseftirlitið hefur tilkynnt Isavia að rannsókn sé hafin á hárri gjaldtöku af hópferðabílum við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Gray Line kærði þessi áform Isavia þann 10. janúar síðastliðinn og hefur fengið afrit af bréfi Samkeppniseftirlitsins til Isavia vegna málsins, dagsett 6. febrúar.

  Í bréfinu til Isavia segir Samkeppniseftirlitið ljóst af frummati sínu að fyrirhuguð gjaldataka Isavia á hópferðafyrirtæki muni að óbreyttu leiða til mikillar verðhækkunar á farþegaflutningum til og frá Keflavíkurflugvelli. Þegar af þeirri ástæðu og vegna forsögu málsins hafi Samkeppniseftirlitið ákveðið að taka kæru Gray Line til meðferðar og hefja rannsókn.

  Samkeppniseftirlitið segir í bréfinu að háttsemi Isavia komi til skoðunar samkvæmt 11. grein samkeppnislaga, sem felur í sér bann við markaðsráðandi stöðu, svo og eftir atvikum 54. grein EES-samningsins.

  Samkeppniseftirlitið gefur Isavia frest til 16. febrúar til að skýra sjónarmið sín og skila upplýsingum um gjaldtökuáformin. Samkeppniseftirlitið óskar eftir öllum upplýsingum og gögnum sem Isavia býr yfir sem varða undirbúning og ákvarðanir um útboð á aðstöðu upp við flugstöðina, gjaldtöku á stæðum fyrir hópbifreiðar og vegna ákvörðunar um að undanskilja Strætó bs. frá gjaldtöku. Samkeppniseftirlitið óskar eftir að fá alla tölvupósta, minnisblöð, útreikninga og Excelskjöl, fundargerðir, samskipti við aðila á markaði og opinbera aðila.

  Samkeppniseftirlitið gefur Isavia stuttan svarfrest með hliðsjón af því að gjaldtakan á að hefjast 1. mars og að Gray Line fór fram á bráðabirgðaákvörðun um að stöðva hana. Í bréfi Samkeppniseftirlitsins segir að því sé heimilt að taka ákvarðanir til bráðabirgða ef sennilegt þykir að viðkomandi háttsemi fari gegn ákvæðum samkeppnislaga og raski samkeppni. Fyrir liggur, segir í bréfinu, að atvinnustarfsemi tengd flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli geti haft verulega sérstöðu í samkeppnislegu tilliti, sem geti falið sér rök fyrir hraðari málsmeðferð heldur en ella. Óskað er eftir sjónarmiðum Isavia til bráðabirgðaákvörðunar og spurt hvort til álita komi af hálfu ríkisfyrirtækisins að fresta gjaldtökunni meðan rannsóknin stendur yfir.

  Forsagan

  Þann 1. desember síðastliðinn tilkynnti Isavia að gjaldataka myndi hefjast þann 1. mars næstkomandi af hópferðabílum sem sækja farþega á svokölluðum fjarstæðum við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Gjaldið á að vera 7.900 kr. fyrir minni bíla og 19.900 kr. fyrir stærri bíla. Gray Line kærði þessi áform til Samkeppniseftirlitsins á þeim forsendum að fyrirhuguð gjaldtaka væri margfalt hærri en eðlilegt gæti talist og stríddi alvarlega gegn hagsmunum neytenda. Benti Gray Line á að við margrar alþjóðlegar flugstöðvar í nágrannalöndunum væri ýmist ekkert gjald tekið af þessum hagkvæma og umhverfisvæna ferðamáta, eða miklu lægra en Isavia áformaði.

  Í bréfinu til Isavia rifjar Samkeppniseftirlitið upp fyrri afskipti sín af áformum um háa gjaldtöku af akstri hópferðabíla með farþega til og frá flugstöðinni. Þar voru samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) að verki, en Vegagerðin hafði veitt þeim einkaleyfi á akstri milli flugstöðvarinnar og Reykjavíkur. SSS ætlaði að taka til sín 40% af tekjum þeirra hópferðafyrirtækja sem gerðu tilboð í aksturinn, en það er svipað hlutfall og Isavia áformar að nú að hafa af þessum akstri. Samkeppniseftirlitið taldi áform SSS á sínum tíma stríða gegn hagsmunum neytenda, skerða samkeppni og leiða til hærri fargjalda. Vísaði Samkeppniseftirlitið til þess í áliti sínu nr. 1/2013 að Gray Line hefði hafið samkeppni við Kynnisferðir á þessari leið árið 2011 og hefði það leitt til lækkunar fargjalda. Svo fór að farið var að tilmælum Samkeppniseftirlitsins og hætt við einokunaráform Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna.

  Auglýsing