SAGT ER…

…að listmálarinn Tolli Morthens sé afmælisbarn dagsins (65) og hann lætur hugann reika að því tilefni:

Ég minnist þess að sem barn og lítill strákur þá hafi ég verið í ágætis sambandi við máttarvöldinn, talsambandið var skýrt við minn æðri mátt og á hverjum degi hrúguðust inn gjafir til mín án þess að ég hafi beinlínis fattað örlætið fyrr en áratugum seinna.
Ég nam hljóð eins og veiðihundur, heyrði hvískur í laufi hinum meginn við vatnið í Kjósinni eða hundgá í öðrum hreppi, golan kyssti kinn og regnið vætti hörund , daga og árstíðir. Sólin var stundum besti vinur manns , það lá alltaf eitthvað frábært í loftinu og glaðar voru stundir út um allar grundir.
Sem sagt sumarland bernskunar liggur í minni mínu eins og Shangri La og það er eins og þar liggi fyrirheit um það sem tekur við þegar kemur að leiðarlokum.
Maður var eins og eitt með himinn og jörð en að sama skapi berskjaldaður fyrir heimi hinna fullorðnu sem stundum gat orðið ansi skuggalegur og skilið eftir fótspor á sálinni.

Núna á ég afmæli og er að taka upp pakkana úr heimi minningana og finn að þrátt fyrir eitt og annað þá var ég vel nestaður fyrir lífið frá móður jörð og það er í gegnum hana sem ég hef lært mest á þessu ferðalagi og hef ég meira að þakka fyrir en að kvarta yfir en fegurstu pakkar lífs míns eru þó börnin mín og hún Gunný.
Ég þakka fyrir 65 ár með ykkur hér á jarðröltinu.
Ást og friður

Auglýsing