SAGAN UM SIGGA OG LALLA OG SKATTALÆKKUNARBULLIÐ

Hildur veit að peningarnir vaxa ekki á trjánum.

“Það fer óskaplega í taugarnar á mér í aðdraganda kosninga þegar frambjóðendur slá um sig með loforði um ‘lægri skatta’. Sérstaklega vegna þess að kjósendur virðast skilja þessi loðnu orð sem “ókeypis peningar,” segir Hildur Sif Thorarensen verkfræðingur:

“Staðreynd málsins er sú að skattalækkun er ekki góð fyrir láglaunafólk. Tökum dæmi, ef Siggi er með 100 þúsund í laun á mánuði og skattarnir lækka um 10% (s.s. úr segjum 40% í 30%) þá græðir Siggi 10 þúsund krónur. Ef Lalli er með 100 milljónir í laun og skattarnir lækka um 10% þá græðir Lalli 10 milljón krónur. Lalli græddi sem sagt miklu meira en Siggi. Ef við hækkum hins vegar persónuafsláttinn um 50 þúsund krónur þá græðir Siggi 50 þúsund og Lalli 50 þúsund. Drengirnir okkar tveir sitja þá skyndilega við sama borð en sá í láglaunastarfinu þarf ekki að sætta sig við þúsund sinnnum minni kjarabót en sá í ofurlaunastarfinu.
Hættum að láta fólk segja okkur að hlutirnir séu allt öðruvísi en þeir eru og leyfa pólitíkusum að slá um sig með bulli. Reiknum dæmið sjálf og finnum út úr því hvað snýr upp og hvað snýr niður.”

Auglýsing