RÚSSÍBANAREIÐ ÞÓRÐAR MÁS EFTIR HRUNIÐ

  Þórður - rússíbaninn heldur áfram.

  Að gefnu tilefni er frétt þessi endurbirt hér tæpu ári eftir að hún birtist upphaflega 21. janúar 2021.

  Af leikvelli fjármálalífsins:

  Þórður Már Jóhannesson, einn af höfuðpaurum hruns fjármálageirans árið 2008, hlýtur að upplifa sig í eilífum rússíbana. Tólf árum eftir að fjárfestingarfélagið Gnúpur, sem Þórður stjórnaði, varð fyrsta fjármálafyrirtækið til að hrynja, er sótt að honum með kröfu um 2,3 milljarða króna skaðabætur út af þessu sama félagi.

  Núna er Þórður Már búinn að koma sér vel fyrir sem stjórnarformaður og einn af hluthöfum Festi, sem á Krónuna, N1 og Elko. Hann kom því persónulega betur út úr hruninu en margir aðrir og hefur fjárfest þá peninga undanfarin ár.

  En hluti fjölskyldna þeirra sem áttu meirihlutann í Gnúpi vilja ekki láta Þórð sleppa svo vel. Í málarekstri gegn honum hafa þau sakað hann um að hafa borgað inn tvo milljarða sem hlutafé í Gnúpi, en tekið þá fjármuni jafnharðan út aftur af reikningi félagsins. Hann hafi því engu tapað þegar félagið fór á húrrandi hausinn rúmlega ári eftir að það tók til starfa. Aftur á móti hafi hinir eigendurnir tapað milljörðum króna á því sem lýst er sem sturlaðri skuldsetningu Gnúps undir stjórn Þórðar. Árið sem Gnúpur fór á hausinn, 2008, fékk Þórður greiddar 300 milljónir króna í arð þrátt fyrir taprekstur.

  Málaferlin vegna Gnúps standa enn yfir. Nýlega vísaði Landsréttur málinu aftur til meðferðar fyrir héraðsdómi. Rússíbaninn heldur áfram.

  Margir muna sjálfsagt eftir því að Þórður Már var forstjóri Straums fjárfestingarbanka sem var spútnik í íslensku fjármálalífi. Á vefsíðu Festi er Þórður Már ekkert að flagga fortíð sinni í Gnúpi. Hann minnist á menntun sína og störfin hjá Straumi og Kaupþingi, en ekki orð um Gnúp. Sjálfsagt vill hann að sem flestir gleymi þeim þætti í umsvifum hans. Þórður fór að fjárfesta í Festi árið 3014, kom inn í stjórn 2018 og varð stjórnarformaður í mars 2020.

  Auglýsing