RÚSSAR SJÓÐHEITIR FYRIR ÍSLANDI

  Anton Vasilev sendiherra Rússlands (th) og Aðalsteinn Júlíus Magnússon frá Hlusta.is

  Nýlega hittu forsvarsmenn Hlusta.is sendiherra Rússlands, Anton Vasilev, í móttöku í sendiráði Rússlands í Reykjavík. Nemum í íslensku við RUDN háskólann í Moskvu hefur þegar verið úthlutað aðgangi að Hlusta.is, sem er bókmenntasíða með íslenskum bókmenntum frá upphafi og fram eftir tuttugustu öldinni.

  Anton Vasilev sendiherra var sérlega áhugasamur um verkefnið og hugmyndir eru nú uppi um að nemar í Moskvuháskóla og í Sankti Pétursborg geti líka fengið aðgang, en það var sendiherrann sjálfur sem nefndi að þar væri áhugi á íslensku.

  Kynning á íslenskum bókmenntum er í forgrunni svo og að auðvelda rússneskum nemum að kynnast íslensku, íslensku samfélagi og menningu. Gagnkvæmur áhugi sendiherrans og Hlusta.is á að stuðla að þýðingum og menningarsamskiptum á báða bóga var afar hvetjandi. Sendiherrann nefndi í því samhengi að áhugavert væri að forsvarsmenn Hlusta.is kynntust rússneskum áhugamönnum um íslensku á heimavelli og gæti hann greitt þá leið.

  Hlusta.is hefur staðið fyrir þýðingum og var mjög gagnkvæmur skilningur á að hvert lítið skref til að kynna íslenska bókmenningu og jafnframt að auka veg rússneskra höfunda hér á landi væri mikilvægt.

  Auglýsing