RÚNARI SÁRNAR MEIRA EN ORÐ FÁ LÝST

  Daglegt líf / mynd / rúnar gunnarsson
  Rúnar Gunnarsson

  “Var að lesa nýju bókina Fegurðin er ekki skraut, þar sem tíundað er í smáatriðum nær allt sem gerst hefur í samtímaljósmyndun á Íslandi. Minna verka er þó hvergi getið,” segir listaljósmyndarinn Rúnar Gunnarsson og er ekki sáttur með:

  “Ég nefni hér nokkur atriði sem ég tel að ættu að vera hluti ljósmyndasögunnar:

  1. Ragnar Jónsson í Smára bauð mér að sýna í Unuhúsi við Veghúsastíg árið 1969. Þetta var stór sýning með myndum úr daglega lífinu sem vakti töluverða athygli og fékk góða dóma listrýnenda. Þetta var ein fyrsta (ef ekki fyrsta) sýningin á samtímaljósmyndum hérlendis.

  2. Sýning í Gallerý Sólon Íslandus í Aðalstræti 1977 þar sem flennistórum myndum úr Grjótaþorpi var stefnt gegn myndum frá New York. Mannlíf og byggingar. Sýningin fékk góða dóma listrýnenda. Valtýr Pétursson og Bragi Ásgeirsson skrifuðu um sýningarnar. (er ekki með á hraðbergi hvor skrifaði um hvora)

  3. Árið 1995 gaf ég úr ljósmyndabók sem nefndist Einskonar sýnir. Einar Falur Ingólfsson skrifaði um bókina í MB og Halldór Björn Runólfsson skrifaði einstaklega lofsamlega um bókina í DV.

  4. Framliðnir Fiskar nefndist sýning mín í Gallerí Bakarí við Skólavörðustíg 2014. Þá má nefna sýningu á Mokka sem nefndist Girðingar og hindranir. Þá hef ég gert 45 ljósmyndabækur um sértæk efni sem prentaðar eru sem handrit í örfáum eintökum.

  Verk mín eru algjörlega hundsuð við gerð nýju bókarinnar, þó það sem hér er upp talið séu augljóslega viðburðir í samtímaljósmyndun sem vert er að minnast. Vissulega þarf að velja og hafna við gerð svona bókar sem er 300 bls. en ég fullyrði að enginn, já enginn sem lagt hefur sem svarar fjórðungi af því sem ég hef lagt til ljósmyndasögunnar hefur mátt þola viðlíka meðferð. Vinnubrögð sem þessi eru vitaskuld ekki í lagi. Mér sárnar þetta meira en orð fá lýst.”

  Auglýsing