RJÓMAKÖTTURINN Í ÁRBÆJARSAFNI

  Mósi er ekkert að leyna áhuga sínum á rjómavöfflunum í Dillonshúsi.

  Stórmerkilegur köttur hefur tekið sér bólfestu í Árbæjarsafni, gerir sér dælt við gesti, sérstaklega lítil börn sem hann lætur elta sig í Dillonshús því hann veit alveg hvað hann er að gera. Þar leggst hann á veitingapallinn og leyfir börnunum og knúsa sig og kjassa á meðan foreldrarnir geta ekki annað en pantað vöfflur með rjóma og kakó því börnin neita að yfirgefa köttinn.

  Þegar vöfflumáltíð lýkur liggur beinast við að leyfa kettinum að sleikja diskana enda var hann að bíða eftir því.

  Veitingakonurnar í Dillonshúsi segja að kötturinn hafi verið með hálsband, merkt Mósi í Rofabæ, en virðist hafa týnt því. Mósi er mættur á staðinn á undan öðru starfsfólki og virðist svo fara heim í Rofabæ eftir lokun.

  Einstakur köttur, gáfaður og góður leikari.

  Árbæjarsafnið er eins og vin í eyðimörkinni í Árbæ. Óskiljanleg staðsetning; auðvitað á Árbæjarsafnið að vera í Hljómskálagarðinum í miðbæ Reykjavíkur.
  Auglýsing