REYNDI AÐ RÆNA HJÓNABANDSSÆLU Á KAFFI VEST

  Uppi varð fótur og fit á stéttinni og mávurinn fylgdist með ofan af bílþaki á götunni.

  Bíræfinn mávur í toppformi gerði atlögu að veitingaborði tveggja kvenna á stéttinni fyrir utan Kaffi Vest á miðjum sunnudegi og krækti í köku sem lá þar á diski.

  “Þetta var hjónabandssæla,” sagði önnur konan og vissi vart hvort hún ætti að hlæja eða gráta.

  En mávurinn meikaði ekki kökuna og missti úr goggi á fleygiferð í loft upp.

  Að sögn Gísla Marteins, eins eigenda Kaffi Vest, hefur mávum fjölgað mikið við útikaffihúsið eftir að Hagavagninn fór að selja hamborgara handan Hofsvallagötu:

  “Samkeppnin í miðbænum er líklega orðin svo mikil að mávarnir eru farnir að leita í úthverfin,” sagði hann.

  Konan fékk aðra hjónabandssælu og mávurinn fylgdist með ofan af þaki lúxusjeppa í nokkurra metra fjarlægð og virtist ekki skammast sín.

  Auglýsing