REFSIVÖNDUR LOSTANS

    “Æ þá er hann fallinn, blessaður kallinn, enn eitt fórnarlamb kynhvatarinnar, þessa hatramma refsivandar lostans sem Drottinn lætur dynja á oss karlmönnum frá vöggu til grafar, oft með hörmulegum afleiðingum,” segir Baldur Hermannsson samfélagsrýnir um nýjustu fréttir af hetjutenórnum Domingo sem nú tröllríða heimspressunni og Baldur heldur svo áfram:

    “Placido Domingo var einn af fremstu listamönnum heims á sinni tíð og veitti mannkyninu ótaldar gleðistundir um dagana, og eiginlega meira en það, því ekki er ofmælt að hann hafi lyft seyrum anda vorum til hæða og minnt okkur á að aldrei stóð til að maðurinn lifði á brauði einu saman.

    Stutt er síðan vinur hans og samstarfsmaður til áratuga, snillingurinn James Levine hjá Metropolitan, hreppti sömu útreið.

    Fréttir herma að Placido hafi aflýst tónleikum vegna þessa áburðar og þykir mér illt til þess að vita. Við verðum að greina milli mannsins og listamannsins … álösum manninum fyrir syndir hans, fyrir alla muni, en meinum honum ekki að fremja list sína, því það er óbætanlegur skaði fyrir mannkynið og hann sjálfan.”

    Auglýsing