RÆKTUN MÁ EKKI VERÐA RUGL

  Íslenskt landslag eins og það gerist best heitir þessi mynd Steina pípara.

  Steini pípari sendir myndskeyti:

  Lágvaxið íslenskt birki- og víðikjarri fer víða vel í landslagi. Það er ekki þar með sagt að heimila eigi hvaða skógrækt sem er hvar sem er. Talað er um skógrækt sem leið til að binda kolefni eins og tréð vaxi og kolefnið sé bundið að eilífu. Það er tvennt sem er mikilvægt að vita. Samkvæmt Sveini Runólfssyni þá verður aukning í sóti ef tré eru ræktuð á blautu landi vegna þess að þurrkun landsins skilar meiri mengun en skógurinn nær að binda. Þá skilar tré meiri mengun en það hefur bundið alla ævi sína þegar það rotnar niður í jarðveginn vegna þess að metan sem verður þá til er margfalt verri lofttegund en sótið.

  Steini skoðar myndavélina.

  Þegar trjárækt er ákveðin verður þannig að flokka hana eftir því hvaða hlutverki hún á að þjóna. Er verið að rækta nytjaskóg eða skóg til útivistar. Þá má flokka útivistarskóg eftir því hvort trén eiga að veita skjól eingöngu eða vera líka til fegurðarauka. Þegar ríkið leggur fé í slíka ræktun verður tilgangurinn að vera ljós og það þarf að setja kvaðir í samræmi við hann. Útivistarskógur á að vera aðgengilegur og nytjaskógur á að vera nýtanlegur þ.e. aðgengilegur fyrir vélar.

  Þegar menn tala um eignarrétt yfir landi verða menn að gera sér grein fyrir þeim takmörkunum sem á honum eru. Hann er alls ekki algjör. Þar koma ýmsar reglur skipulagslaga og grenndarreglur osfrv. Þá geta verið um óbeinan eignarrétt annarra til ákveðinna nota af landinu. Við þekkjum í þessu sambandi hefðaðan beitarrétt bænda. Ég velti því fyrir mér hvort almenningur eigi ekki rétt á að njóta útsýnisins og því verði að taka tillit til þess réttar þegar hávöxnum trjám er plantað. Við getum tekið sem dæmi ef allt útsýni til Vatnajökuls frá þjóðveginum verði girt af með skógi.

  Ég hef nefnt þætti eins og að ræktun á blautu landi eykur kolefnislosun og öll skógrækt getur rýrt upplifun ferðamanna þó hún geti líka haft jákvæð áhrif á hana. Þetta verður að meta þ.e. það verður að fara fram umhverfismat fyrir öll stærri ræktunarsvæði skóga.

  Auglýsing