RÆKTUM TÓMASARLUND

  Jakob Frímann Magnússon sendir póst:

  Tómas Magnús Tómasson hefur verið nefndur „Bassaleikari Íslands“ , „Upptökustjóri Íslands“ og í útfararræðu Ara Eldjárn var hann sagður „Fyndnasti maður Íslands“.
  Það eru stór orð úr munni þess sveitunga Tómasar úr Svarfaðardal sem nú ber sjálfur þann titil skuldlaust. Tómas lést 2018.

  Við sem áttum því láni að fagna að kynnast Tómasi og starfa með honum, hugsum til hans alla daga, söknum hans og minnumst með eilífri eftirsjá og væntumþykju. Allir fundir, æfingar,tónleikar og verkefni með Tómasi voru ómælt tilhlökkunarefni. Lund hans var svo ljúf, jákvæð og gamansöm að allir litu til samfunda við hann með eftirvæntingu.

  Slíkt lundarfar er of sjaldgæft í samfélagi okkar. Þrasgirni og illmælgi mætti hugsanlega telja til helstu lasta heillar þjóðar sem þó nýtur viðurkenningar sem ein mesta velferðar- og fyrirmyndarþjóð heims Hér koma samfélagsmiðlar og kommentakerfi fjölmiðla við sögu.

  Vinir og velunnarar Tómasar hafa sameinast um verkefnið „Tómasarlund um land allt!“ Það felur í sér að rækta skóg og lund sína í senn. Fyrstu rætur alls þessa verða í jörð settar í dag, nálægt rótum Tómasar sjálfs, í Svarfaðardal við Eyjafjörð.

  Á næstunni mun fólk taka að rækta Tómasarlund um land allt – láta skógrækt samtvinnast geðrækt í öllum landshornum, í samvinnu Græna hersins, Skógræktarfélags Íslands, skógræktarfélaga landsfjórðunganna, Upplifðu Ísland-hópsins og ótalinna vina og velunnara Tómasar M. Tómassonar, um leið og við minnumst einstaks lundarfars hans og geðprýði. Hvert jarðsett tré verði okkur hvatning til að gerast betri:

  Betri þegnar, betri hvert við annað, betri við landið okkar og betri í því sem við tökum okkur fyrir hendur – og það með glöðu geði.

  Frá og með deginum í dag tökum við höndum saman um að rækta Tómasaralund um land allt í minningu hins einstaka öðlings og fjölhæfa merkismanns sem Tómas Magnús Tómasson var. Hann hefði orðið 66 ára í dag.

  Auglýsing