RÆÐA FRIÐRIKS ÞÓRS

Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndaleikstjóri og rektor Kvikmyndaskóla Íslands var að útskrifa nemendur í góða sumarveðrinu 2020. Hér er ræðan sem hann hélt:

Kæru útskriftarnemar, foreldrar, fjölskyldur og vinir, kennarar og starfsfólk. Ég býð ykkur velkomin til þessarar útskriftar frá Kvikmyndaskóla  Íslands vorið 2020.

Það er alltaf ánægjulegt fyrir okkur starfsfólk skólans að útskrifa nemendur og sérstaklega á svona fallegum degi. Í gærkvöldi horfði ég á útskriftarmyndirnar ykkar og sannfærðist um að þið væruð tilbúin að fara út í djúpu laugina. Það kom mér á óvart hvað kórónuveiran hafði lítil áhrif á gæði verkanna. Því auðvitað rústaði þessi pest skólastarfinu á síðustu önn. En þið fenguð dýrmæta reynslu við að takast á við hið óvænta og sigrast á þeirri áskorun. Það er nefnilega eitt það mikilvægasta við kvikmyndgerð að geta brugðist við breyttum aðstæðum því það koma alltaf upp ófyrirsjáanlegir hlutir við gerð kvikmyndaverka. Eins og veðrið til dæmis, það er ekki til neitt veður hér á landi heldur bara dæmi um veður. Það breytist stöðugt og þá þarf að geta brugðist við því með því að nýta það okkur í vil, en ekki láta veðrið stjórna okkur. Það er reynsla mín að fallegustu myndskeið íslenskrar kvikmyndsögu voru skotin í fárviðri. Þegar ekki var hundi útsigandi en einmitt í slíku veðri felast tækifæri til að skilja okkar verk frá logn mollunni í Hollywood þar sem alltaf er sól og sumar. Þess vegna er það svo nauðsynlegt að þið gerið ykkur grein fyrir því fornkveðna að lókal er glópal. Þegar kemur að því að þið veljið ykkur framtíðarverkefni þá er hollt að hafa í huga að gera þau úr ykkar nærumhverfi. Hugsa eins og kokkur sem notar aðeins hráefni úr hans umhverfi. Og talandi um mat og kvikmyndir, reynið endilega að forðast að gera myndir sem eru aðeins hugsaðar til að drepa tíma líkt og skyndibitinn sem er til þess að slá á hungur í stuttan tíma. Reynið frekar að matreiða eitthvað sérstakt, beint frá býli. Það er alltaf upplifun að horfa á mynd frá framandi landi og kynnast menningu þess og siðum samanber “Sníkjudýrin” sem vann Óskarinn síðast. En hvaða umhverfi bíður ykkar ? Það góða við veiruna er að hún skapaði ástand í heiminum sem við getum nýtt okkur. Hún stoppaði alla kvikmyndagerð í heiminum þar sem hún grasseraði og þess vegna bíða nokkrar stórmyndir eftir því að verða teknar upp hér á landi. Þið ættuð öll að reyna að fá vinnu við þessi verkefni og safna reynslu. Því í okkar fagi erum við alltaf að læra og safna í reynslubankann.

Ég var einn af mörgum í nefnd sem menntamálaráðherra skipaði til að móta framtíðarsýn til næstu 10 ára. Þar er lagður grunnur að betra umhverfi fyrir ykkur til framtíðar, ef stjórnvöld framfylgja þessum tillögum. Meðal annars er lögð áhersla á stóraukna framleiðslu á sjónvarpefni og ódýrar byrjandamyndir. En kvikmyndagerð verður alltaf basl því heimsmarkaðurinn er svo smár. En þráin til að segja sögur verður alltaf að vera knúinn áfram af ástríðu fyrir kvikmyndaforminu því þá munuð þið fá ást ykkar endurgoldna. Það er löng leið frá hugmynd að kvikmynd þar til þið sjáið hana á tjaldi. Flestar myndir mínar hafa verið 5 ár í þróun því er það nauðsynlegt að hafa þolinmæði að leiðarljósi. Það er oft sársaukafullt að hafa þaulhugsaða mynd í hausnum og geta ekki tosað hana út vegna þess að það skortir fjármagn. En treystið mér, allar myndir hafa gott að því skolast til í heilabúinu því vitneskjan um að verkjataflan sé handan við hornið er svo skapandi. Þá er mikilvægt að hafa í huga að kvikmyndagerð er samvinna fjölda listamanna. Þessu má líkja við sinfóníuhljómsveit þar sem hvert hljóðfæri spilar hlutverk og ef einn falskur tónn er sleginn, þá þarf að byrja uppá nýtt. Þess vegna er tillitsemi við aðra sem koma að verkinu nauðsynleg til að ná sem bestum árangri. Það sem hefur reynst mér best er að hlusta á aðra sem vinna með mér. Því það fólk sem vinnur með þér hverju sinni er að bæta verkið. Sá sem hlustar ekki á hugmyndir annara endar oftast sem einangraður fáviti fullur af minnimáttarkennd.

Skólinn okkar stendur á tímamótum og munum við flytja í nýtt húsnæði fyrir haustið. Þar erum við að hugsa til langrar framtíðar. Þá erum við að koma náminu á háskólastig. Þetta hefði ekki verið gerlegt nema fyrir velvild menntamálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, sem leysti skólann úr áralöngum viðjum samningagerðar við ríkið og stendur núna við bakið á nemendum skólans að koma náminu á háskólastig. Eins og margir hafa kannski séð erum við að auglýsa eftir aðstoðarrektor. Þetta er ný staða sem er ætlað að stýra yfirfærslunni á háskólastig og uppbyggingu alþjóðlegar deildar.

Þar sem Kvikmyndaskólinn er nú nákvæmlega staddur, er að á mánudaginn 29. júní fundar Gæðaráð Íslenskra háskóla um beiðni Mennta- og menningarmála ráðuneytisins um skipan 3 manna umsagnarnefndar erlendra sérfræðinga, sem gefa á ráðherra umsögn um fyrirliggjandi háskólabeiðni. Kvikmyndaskólinn hefur lagt fram þá ósk að væntanleg úttekt fari fram í september og að væntanleg viðurkenning liggi fyrir 1. desember.

Ástæðan fyrir því að við sækjum eftir flýtimeðferð er mikilvægi kvikmyndaiðnaðarins fyrir íslenskt efnahagslíf og samfélag. Það er orðið mjög brýnt fyrir greinina koma á háskólanámi og fyrir nemendur skiptir öllu máli að þeir eigi greiða leið í sérnám, eða annað framhaldsnám.

Það eru ekki einungis nemendur framtíðarinnar sem hér er um ræðir. Kvikmyndaskólinn hefur starfað eftir háskólaviðmiðum frá árinu 2010, eða í raun allt frá 2007. Á þessum tíma hefur skólinn útskrifað 500 nemendur og ætla má að töluverður hluti þeirra myndi vilja nýta sér mat á námi sínu inn í BA námsleið. Þar á meðal þeir sem eru hér í dag að útskrifast.

Stefnt er að því loka samningum við Háskóla Íslands um leið og háskólaviðurkenning Kvikmyndaskólans liggur, og bjóða upp á 1 árs nám við hina frábæru kvikmyndadeild sem þar er starfrækt, til BA gráðu. Væntingar Kvikmyndaskólans er að hægt verði að bjóða upp á þessa þriggja ára námsleið í samtarfi við HÍ á vorönn 2021. Þá liggi einnig fyrir mat á eldra námi. Þess verður að geta að viðræður við Háskóla Íslands hafa staðið yfir um árabil og útfærslur liggja í stórum dráttum fyrir. Í raun hefst háskólanámið í haust og það er starfsemi haustannar sem verður metin sem háskólastig.

Kvikmyndaskólinn er nú þegar farinn að hefja umbreytinguna. Skipuð hefur verið dómnefnd fjögurra valinkunnra doktora, til að meta hæfi væntanlegra akademískra starfsmanna. Væntanlegir prófessorar verða ráðnir í ágúst. Þá er einnig nýtt 12 manna háskólaráð sem meðal annars er skipað fulltrúum frá öllum helstu fagfélögum kvikmyndagerðarmanna og leikara. Ýmislegt fleira er undirbúningi. Engar grundvallarbreytingar eru væntanlegar í námskrá og Kvikmyndaskólinn er þess fullviss að faglega stenst hann kröfur, enda hefur skólinn verið í alþjóðlegu samstarfi um árabil og hefur getað borið gæði starfseminnar saman við alla helstu kvikmyndaskólana erlendis.

Á tímum sem þeim sem nú ríða yfir íslenskt efnahagslíf, þar sem tekjur hafa dregist saman um tugi prósenta  og atvinnugreinarnar og fólkið í landinu keppast að koma atvinnulífi og tekjuöflun í gang, þá er mjög mikilvægt að menntakerfið og stjórnvöld bregðist hratt við. Það að Kvikmyndaskólinn fái háskólaviðurkenningu og nemendur fái háskólagráðu flýtir beinlínis fyrir uppbyggingu mikilvægrar atvinnugreinar. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að kvikmyndaiðnaðurinn hefur um árabil verið í hópi 15 veltuhæstu atvinnugreina landsins og hefur mikla möguleika til vaxtar. Í þessari stöðu er mjög mikilvægt að nám í Kvikmyndaskólanum sé rétt metið, þannig að hann geti veitt sem bestan stuðning.

Móðir mín var vön að byrja sínar ræður á því að segja; “Í dag er sá dagur sem vert er að minnast”. Það verða mín loka orð, til hamingju með þennan fallega dag og megi hann verða ykkur minnisstæður.

Auglýsing