PARADÍS ER Á JÖRÐU

“Menn eru alltaf að leita að innri ró og fara allskonar leiðir að því, t.d. að humma einhverjar möntrur á strámottu í hópi annarra með lokuð augu og reyna að hugsa sig inn í annan heim eða æðra veldi, hvíla lúin bein og kveðja stressið sem menn eru búnir að kalla yfir sig sjálfir,” segir Guðni Erlendsson, fyrrum athafnamaður í Reykjavík, einn af stofnendum veitingastaðarins Hornið í Hafnarstræti, nú búsettur í Kaupmannahöfn – og heldur áfram:

“Það eru til aðrar leiðir til að slaka á og njóta lífsins án strámottanna, vímuefna og áfengis.
Ein þessara leiða er að fara í veiði við eitthvert fallegt vatn og njóta náttúrunnar þar, stangveiði gengur ekki út á að drepa fisk, heldur út á að upplifa náttúruna bæði ofan yfirborðsins og undir því, hugurinn kúplar algjörlega frá streði dagsins og veiðimaðurinn verður hluti af náttúrunni og fer að stilla öll sín skilningarvit inn á umhverfið, allt frá fuglum himins niður í skordýr og lirfur sem kvikna til lífsins undir spegilfleti vatnsins.

Þetta hafa frumbyggjar þurft að nýta sér til að afla matar og hafa á þeim forsendum tengst náttúrunni. Nútíma maðurinn hefur að vissu leyti glatað tengslum sínum við náttúruna, en þúsundir ára hæfileikar eru ekki glataðir, þótt þeir séu djúpt grafnir. Einföld og þægileg leið til að kynnast því er að kaupa sér veiðistöng, ( ekkert merkja kjaftæði hér ) og heimsækja fjallavatnið sitt, það skiptir engu máli hvort þér tekst að krækja í fisk eða ekki, það kemur af sjálfum sér ef að þú hefur þolinmæði.

Paradís er á jörðu.”

Auglýsing