PABBI VOPNASALI (ÞÚ LAST ÞAÐ FYRST HÉR)

    Að gefnu tilefni endurbirtum við hér rúmlega mánaðargamla frétt sem fyrst nú er á allra vörum í meðförum annarra fjölmiðla þó langt sé um liðið:

     

    Gamall fréttahaukur skrifar:

    Guðjón Valdimarsson, pabbi Sigríðar Bjarkar ríkislögreglustjóra, er í sviðsljósinu vegna meintra tengsla við ætlaða þungvopnaða hryðjuverkamenn. Guðjón er mikill vopnasafnari og hefur verið að flytja inn vopn í gegnum tíðina, ýmist fyrir eigin söfnun eða til að selja öðrum.

    Nokkurra ára gamalt dómsmál þar sem Guðjón kom við sögu hefur ekki farið hátt.

    Fyrir nokkrum árum hafði lögreglan hendur í hári manns sem var með sjálfvirkan árásarriffil í fórum sínum, semsagt hríðskotabyssu. Byssan var sömu gerðar og helst er notuð í bandarískum fjöldamorðum. Maðurinn var dreginn fyrir dóm fyrir að hafa ólöglegt og stórhættulegt skotvopn undir höndum. Þar fullyrti maðurinn að hann hefði keypt riffilinn þannig búinn af téðum Guðjóni á 1,2 milljónir króna. Guðjón neitaði því og sagði að þegar hann seldi riffilinn hefði honum ekki verið breytt í hríðskotabyssu.

    Það sem þótti sérstakt í þessu máli er að grunngerð riffilsins, þ.e. sem aðeins getur skotið einu skoti í einu, kostar um 200 þúsund krónur.

    Þó að málið hafi komið fyrir dóm, þá er ekkert að finna um það á vefsíðum dómstólanna og ekki vitað hvernig því lyktaði. Tveir blaðamenn munu hafa komist á snoðir um málið og leitað nánari upplýsinga, en ekki fengið.

    Auglýsing