ÓNÝTT HÚS

  Þessa mynd frá bjarnalandi.is póstar Einar Bárðarson og heldur baráttuni áfram fyrir eiginkonu sína, sem rekinn var frá Orkuveitunni, undir slagorðinu #istandwithher. Í morgun sagði Einar:

  Í dag er einn mánuður frá því að Áslaugu Thelmu konunni minni var sagt upp án útskýringa hjá ON/OR og henni fylgt úr húsi. Uppsögnin hefur dregið dilk á eftir sér sem varla þarf að kynna en yfirmaðurinn sem sagði henni upp var rekinn sólarhring eftir fund Áslaugar með forstjóra OR/ON. Þar sem Áslaug óskaði skýringa á uppsögninni sinni.

  Forstjórinn er sjálfur heima á launum og Innri Endurskoðun rannsakar núna vinnustaða “menningu” þessa stærsta fyrirtækis Reykjavíkurborgar.

  Nú mánuði seinna:
  1 .Hefur engin útskýrt fyrir henni af hverju henni var sagt upp.
  2. Engin hefur beðið hana afsökunar á uppsögninni.
  3. Engin í stjórn ON eða yfirmenn OR þakkaði henni fyrir að þora að stíga fram.
  4. Uppsögnin stendur ennþá og starfslok hennar hafa ekki verið endurskoðuð.

  Á dögunum fundaði ný forstjóri með Áslaugu en um það fund hét Áslaug Thelma, nýjum forstjóra, trúnaði. Það sem ekki fór fram á fundinum þarf þó væntanlega ekki að halda trúnað yfir og það var ekkert af því sem ég taldi hér upp að ofan.

  Vegna þessa trúnaðar hafa margir dregið þá ályktun að einhverskonar samningaviðræður séu í gangi en það er ekki. Engar samningaviðræður eða tilraunir til samninga fóru fram á fundinum.

  Eftir situr á sorglegan hátt sú staðreynd að hjá OR fá dónar og káfarar starfslokasamninga og svigrúm til að fara í meðferð en konur sem láta ekki bjóða sér dónaskap og eru sendar í rannsókn hjá Innri Endurskoðanda Reykjavíkurborgar. Þetta kallar á einhverskonar heiðursverðlaun í meðvirkni.

  Konan mín er sigurvegari, á því leikur engin vafi. Hún er búin að leggja allt sitt á vogarskálarnar fyrir MeToo hreyfinguna. Hún er konum um allt land í öllum stéttum innblástur. Það finnum við allstaðar þar sem við komum síðustu vikur. Hún hefur ekki kallað á eða baðað sig upp úr athyglinni sem þetta mál hefur kallað til hennar. Kveðjurnar úr öllum áttum hafa þó elft hana og styrkt í þessum stormi og fyrir þær erum við fjölskyldan þakklát.

  Mál Áslaugar er á margan hátt prófsteinn á okkur sem samfélag. Vonandi ber Orkuveitunni gæfa til þess að leysa það með þeim hætti að konur muni í framtíðinni þora að stíga fram og feta þannig í fótspor Áslaugar og annara kvenna sem stigið hafa fram en hrökklist ekki lengra inn í hellinn á bak við dónanna. Það væri skref afturábak í öllu því sem við teljum að hafi áunnist í með MeToo byltingunni.

  Auglýsing