ÓMERKILEGT KASSAVÍN MEÐ 500% ÁLAGNINGU

    WW dælir fyrsta bjórnum í glas á Hótel Sögu. Starfsmaður fylgist spenntur með.

    “Lokun skemmtistaða fyrr á kvöldin, þetta er sama umræðan og fyrir 30-40 árum,” segir Wilhelm Wessman fyrrum hótelstjóri og forystumaður í samtökum veitingmanna um árabil:

    “Ég er sammála rökum Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um að ekki eigi að skerða opnunartíma skemmtistaða, en þar vitna ég til reynslu minnar af þessu máli fyrir 30-40 árum síðan. Þá var ég formaður SVG Sambands veitinga-og gistihúsa forvera SAF og í forustusveit þeirra sem vildum lengri opnunartíma á veitingahúsum. Með lengingu opnunartíma færðust hin alræmdu heima partí úr heimahúsunum, með tilheyrandi ofbeldi og ónæði í heimahúsum og íbúðarhverfum. Ég tel aðeins lítið brot af því sem gekk á hafi ratað í bækur lögreglunnar.

    Þessi umræða vekur upp minninguna um baráttu sem SVG háði fyrir hækkaðri álagningu á vín og sterka drykki. Þegar ljóst var að bjórfrumvarpið færi í gegn hertum við róðurinn fyrir hækkun álagningu á vín (bjór átti að falla þar undir) var 50% + 15% þjónustugjald og 70% + 15% þjónustugjald á sterka drykki. Þessi álagning stóð ekki lengur undir umsýslan og lagerhaldi á víni.

    Daginn fyrir bjórdaginn boðaði stjórn SVG fund með félagsmönnum, þar sem við höfðum ekki fengið svar frá dómsmálaráðherra um hvort við fengjum hækkun á álagningu. Þegar ég var kominn í ræðustól hringdi síminn(ekki voru komnir gemsar þá) Erna Hauksdóttir framkvæmdastjóri fór í síman og í honum var Halldór Ásgrímsson dómsmálaráðherra með boð til fundarins um að hann veitti veitingamönnum frjálsa álagningu TIL REYNSLU. Ég flutti boðin við mikinn fögnuð fundarmanna. Þegar fagnaðalátunum linnti sagði ég úr ræðustól að við þyrftum að fara vel með þetta vald og ekki hækka álagningu nema upp í 90% og voru fundarmenn sammála því.

    Í dag er álagningin misnotuð freklega. Lagt er á ómerkilegasta kassavín 300-400% og ekkert er tekið tillit til gæða eða þjónustustigs viðkomandi veitingahúss. Sú hefð sem var fyrir magni í vínglasi er löngu búið að gleyma, þannig að ef tillit er tekið til þess er álagningin í mörgum tilvikum komin langt yfir 500%

    Ég tel að umræðu um þessi mál þurfi að taka upp og setja í fastar skorður. Við tölum um að hækka gæði í ferðaþjónustu, þetta er hluti af því.”

    Auglýsing