NÁIN OG PERSÓNULEG VINÁTTA TVEGGJA DÓMARA

  Sadet Yuksel og Róbert Spanó. Andrés Magnússon á milli þeirra.

  Rómanó skrifar:

  Morgunblaðið, nýr penni á þeim vettvangi, Andrés Magnússon skrifar grein í miðopnu blaðsins í dag þar sem fjallað er um umdeilda Tyrklandsheimsókn Róberts Spanó forseta Mannréttindadómstóls Evrópu. Bent er á að heimsókn forseta dómstólsins hafi verið gagnrýnd víða í evrópskum fjölmiðlum og Róbert Spanó sakaður um dómgreindarleysi, þar sem tyrknesk stjórnvöld undir einræði Erdogans hafa mulið undan réttarríkinu, þverbrotið grundvallarmannréttindi borgaranna, rekið 4500 dómara út á guð og gaddinn og mörg þúsund kærur frá tyrkneskum borgurum bíða meðferðar Mannréttindadómstólsins í Strassborg.

  Spanó er sérstaklega gagnrýndur fyrir að hafa þegið doktorsnafnbót frá háskólanum í Istanbúl þaðan sem 200 prófessorar hafa verið flæmdir burt þ.á m. eiginmaður fyrrverandi meðdómara Róberts Spanó hjá Mannréttindadómstólnum, Icil Karakas. Þar kemur að kjarna fréttaskýringar Moggans en hann er sá að náin persónuleg vinátta hins nýskipaða og umdeilda forseta Mannréttindadómstólsins við nýskipaðan dómara af hálfu Tyrklands, hina 36 ára ógiftu og barnlausu Sadet Yuksel, hafi ráðið mestu um tilurð og framkvæmd þessarar heimsóknar. Bendir hinn nýi skríbent Moggans, Andrés Magnússon, á það að í heimsókninni hafi Róbert Spanó heimsótt heimaborg Sadet Yuksel þar sem fjölskylda hennar hefur mikil áhrif enda hliðholl Erdogan, auk sem þar er kjördæmi bróður hennar sem er þingmaður í stjórnarflokki Erdogans, AKP.

  Mogginn skýrir frá því að Spanó og Sadet Yuksel hafi fylgst að alla ferðina. Birtir blaðið síðan sérklausu um feril Sadet Yuksel. Hún er 36 ára og lauk laganámi frá háskólanum í Istanbul 2012. Síðan stundaði hún framhaldsnám við Harvardháskóla þaðan sem hún lauk mastersnámi. Eftir það hafi hún kennt við ýmsa háskóla í Tyrklandi án þess að eftir hana liggi mikil fræðiskrif. Þess utan hafði ekki reynslu af dómarastörfum þegar hún var skipuð dómari í Strassborg í júlí 2019.

  Mogginn getur þess ekki sem kemur fram á heimasíðu Mannréttindadómstólsins að Sadet Yuksel hafi lokið doktorsprófi frá háskólanum í Istanbul. Hún var ein þriggja tilnefnd af tyrkneskum stjórnvöldum til að verða dómari í Strassborg og hlaut afgerandi kosningu í Evrópuráðsþinginu umfram hina tvo tilnefndu. Þá kemur það ekki fram á heimasíðu Mannréttindadómstólins að Sadet Yuksel sé ógift og barnlaus sem Mogganum finnst augsýnilega skipta miklu máli. Auk þess er bent á að Róbert Spanó kunni að standa í þakkarskuld við Sadet Yuksel þar sem hún studdi hann í að verða forseti dómstólsins. Síðan birtir Mogginn sæta skvísumynd af Sadet til að kóróna umfjöllunina en ekki mynd af henni í dómaraskikkju sem fá má af heimasíðu dómstólins.

  Margt sagt undir rós af nýjum liðsmanni Moggans.

  Auglýsing