MYNDIRNAR HURFU ÚR BÓKINNI SKIPIN SEM HURFU

    Anna og Stefanía á fullu við að líma horfnu myndaarkirnar í Skipin sem hurfu.

    Starfsmönnum Veraldar brá í brún þegar bókin Skipin sem hurfu eftir Steinar J. Lúðvíksson kom úr prentun á dögunum. Í henni segir Steinar J. frá skipum sem hurfu á öldinni sem leið á Íslandsmiðum. Í sumum tilvikum er vitað hvað gerðist, í öðrum var enginn til frásagnar og aðeins hægt að geta sér til um hver afdrif þeirra urðu. Það sem olli undrun Veraldarfólksins var að myndaörk sem átti að fylgja bókinni var ekki í einu einasta eintaki.

    Munurinn var sá að nú var einhver til frásagnar. Prentsmiðjan ytra baðst innilega afsökunar á þessum mistökum, þau hefðu aldrei lent í neinu viðlíka og sendu myndaörkina með hraði til Íslands. En hvernig átti að setja saman myndaörk og bók sem búið er að prenta? Þar komu Björn Heimir Björnsson og samstarfsfólk hans í Múlalundi til skjalanna og hafa þau nú lokið við að líma myndaörkina inn í bókina sem er ekki einfalt mál. Þar naut Björn Heimir áratuga reynslu sinnar í Prentsmiðjunni Odda en hann vann verkið ásamt samstarfskonum sínum Önnu Stefaníu og Stefaníu Eydísi.

    Það tekst því að koma Skipunum sem hurfu  í verslanir – með myndaörkinni góðu – áður en jólabókavertíðin nær hámarki. Og kannski var við hæfi að í fyrsta skipti sem Veröld og prentsmiðjan ytra lenda í því að heil örk hverfur skuli það vera í bók sem fjallar um dularfull hvörf, að vísu ekki myndaörkum – heldur skipum á hafi úti.

    Auglýsing