MORÐIÐ Á MJÓLKURKÚNNI

  Steini pípari sendir myndskeyti:

  Það eru gullin sannindi að það þarf að fjárfesta til að ná hagnaði. Jafnvel pípari þurfti að kaupa græjur til að geta selt sína vinnu. Það er talað um mjólkandi kýr þegar fyrirtæki hætta að endurnýja sig og eigendur draga seinustu blóðdropana úr þeim.

  Ég lít svo á að ríkisstjórnin hafi litið á ferðamannaiðnaðinn sem mjólkandi kú. Lítið hefur verið fjárfest í innviðum, vegir látnir drabbast niður og mikilvægir ferðamannaslóðar eins og Dettifossvegurinn lokaður stóran hluta ársins. Ekkert hefur verið gert til að hlífa Geysis svæðinu svo það traðkist ekki í svað af öllum þeim fjölda sem það sækir heim svo dæmi séu tekin. Stígagerð er ekki sinnt nema að litlu leyti. Stefnumörkun virðist vera í molum.

  Nú þegar ferðamönnum fer fækkandi geta ráðamenn kennt WOW um það og Boeing verksmiðjunum. Þó hefur verið spáð að einhvern tíman myndi ferðaþjónustan vera kominn að þolmörkum og ferðamenn færu að forðast allt traðkið eftir fyrirrennara sína. Þá segja einstaka þingmenn og ráðherrar að þetta sé nú bara allt í lagi, þeir hafi hvort sem er verið allt of margir þessi túristar. Þeir tala niður greinina sem hefur bjargað okkur út úr seinustu kreppu í stað þess að gefa í og gera ráðstafanir.

  Nýjustu tillögur gera ráð fyrir að minnka styrki til kvikmyndagerðar hér en það eru einmitt kvikmyndir sem hafa komið Íslandi á kortið sem ferðamannaland. Það er ekki rétti tíminn til þess núna. Kreppan sem nú blasir við gerir landið ódýrara og meira spennandi fyrir kvikmyndaframleiðendur. Mikil vinna skapast við það og sala á þjónustu. Drepum ekki niður mjólkurkúna þegar kreppir að.

  Auglýsing