MISTÖK AÐ STYTTA VINNUVIKUNA

  "Maður upplifir sig eins og hálfgert vélmenni, öll þessi mannlegu samskipti við vinnufélaga sem gera svo mikið fyrir andlega líðan eru meira og minna horfin."

  Skeyti frá opinberum starfsmanni:

  “Mikið hrikalega er þessi stytting vinnuvikunnar misráðin. Til að komast fyrr heim úr vinnunni er búið að fórna kaffitímum og stytta matartíma niður í nánast ekki neitt. Fyrir vikið er hreint ömurlega leiðinlegt á vinnustaðnum og maður situr bara sem fastast við tölvuna og símann. Maður upplifir sig eins og hálfgert vélmenni, öll þessi mannlegu samskipti við vinnufélaga sem gera svo mikið fyrir andlega líðan eru meira og minna horfin.

  Það er deginum ljósara að blessaðir verkalýðsforkólfarnir sem börðust fyrir því að stytta vinnuvikuna horfðu ekki á stóru myndina þegar þeir voru að koma þessu í gegn. Líklega spáði enginn í þetta af neinu viti.

  Vissulega munar um að vera 36 tíma í vinnunni frekar en 40. En málið er bara að þessir fjórir tímar sem fara annars í mat og kaffi eru verðmætir, því þeir létta lundina og skapa vinnuandann.

  Ég ráðlegg öllum sem eiga eftir að semja um styttingu vinnutímans að hafna því og halda í kaffitímana. Svo má líka spyrja hvort maður græði eitthvað að ráði á því að komast fyrr heim úr vinnunni. Til hvers – er maður ekki nógu mikið heima hjá sér nú þegar?”

  Auglýsing