MARKASKORARINN Í VÖRNINNI

  Birkir Már fagnar með Jóni Daða og Albert Guðmundssyni jr.

  Í sumar hefur það vakið talsverða athygli hversu iðinn við markaskorun Birkir Már Sævarsson, leikmaður Vals og landsliðins, hefur verið. Skoraði til að mynda glæsilegt mark gegn besta landsliði heims, Belgum, í gær.

  Svanur Már.

  Birkir Már er einn leikjahæsti landsliðsmaður Íslands fyrr og síðar, og hefur hann á sínum ferli í meistaraflokki verið varnarmaður – afar hraður bakvörður. Færri vita þó að Birkir Már er fæddur markaskorari, og lék sem framherji í yngri flokkum Vals.

  “Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að þjálfa Birki Má þegar hann var á yngra ári í 5. flokk Vals, tímabilið 1994-5. Ég sá strax í honum gríðarlegt efni, og þá sem sóknarmaður,” segir Svanur Már Snorrason fyrri þjálfari og slyngur dómari í yngri flokkum:

  “Þrátt fyrir að vera á yngra ári var hann ætíð í byrjunarliðinu í A-liðinu, og raðaði inn mörkum – var fljótur, útsjónarsamur og nýtti færi sín gríðarlega vel. Sá alltaf fyrir mér að hann myndi verða framherji í fremstu röð og slá markametið hér á landi, plús að skora fullt í Evrópu og með landsliðinu. Og núna, 36 ára gamall, er hann að springa út sem sóknarmaðurinn sem hann hefði alltaf átt að vera.”

  Auglýsing