MÁL AÐ LINNI (ICELANDAIR) – AMEN

  Ég byrjaði að læra að verða kokkur hjá Loftleiðum upp á Keflavíkurflugvelli 3. september 1967. Var þar meira og minna við störf fram á árið 1978. Eitt sinn skáti ávalt skáti, eitt sinn Loftleiðamaður ávalt Loftleiðamaður. Eða þannig.

  Síðan er mikið vatn til sjávar runnið. Félagið hefur vissulega breytt um ásýnd og gengið í gegnum allkonar hremmingar. Sameiningu og nafnabreytingar, það man tímana tvenna. Sem er nú allt gott og blessað

  Ég hef verið hluthafi (lítill) í nokkur ár og er stoltur af þó ég hafi svo sem ekki haft mikið upp úr krafsinu en vona að það standi til bóta með nýrri stjórn og nýju umhverfi eftir Covid19.

  Nú enn og aftur á að fara að kjósa í stjórn félagsins í næsta mánuði. Ef ég lít yfir hóp núverandi stjórnar þá finnst mér eins og þar sé enginn sem hefur reynslu af rekstri flugfélags, eins og sagt er: “Hands On”.

  Mér er það minnistætt þegar ég var á aðalfundi og nýbúið að kjósa nýjan fulltrúa í stjórn sem tilnefndur var af meirihluta eiganda, sem á þeim tíma voru nokkrir lifeyrissjóðir sem fóru með feitan meirihluta. Þá heyrði ég með eigin eyrum nýja fulltrúann segja orðrétt: “Ég veit ekki hvað ég er að gera hér, ég hef ekkert vit á flugrekstri.” Ég sat á næsta borði, þetta er ekki “orðrómur” eða “hear say”.

  Warren Buffet, einn þektasti fjárfestir hins vestræna heims, hefur haft þann háttin á að hann skoðar fyrirtæki og þá sérstaklega stjórnendur, stjórn og forstjóra og ef honum líst vel á þá kaupir hann og bíður svo eftir árangrinum – og hann passar sig á að skipta sér ekki allt of mikið af. En á Íslandi þar sem lífeyrissjóðirnir hafa átt stóra hluti í fyrirtækjum þá fara þeir alltaf að skipta sér af stjórn og stjórnendum.

  Eins og ég sé þetta þá hefði ég haldið að fulltrúar lífeyrissjóðanna eigi að ávaxta sitt pund en ekki vera skuggastjórnendur. “Held að William Tell hefði ekki hitt eplið ef einhver hefði verið að hjálpa honum að miða.”

  Hlutabréf Icelandair hafa á síðastliðnum 5 árum fallið úr 37 niður í 1.52 eftir að hafa verið eitt verðmætasta og stærsta (svo ég tali nú ekki um flottasta) fyrirtæki landsins og niður í að vera hið næst verðminsta fyrir síðasta hlutafjárútboð.

  Til að gera langa sögu stutta þá sé ég þetta svona:

  Þórunn Reynis og Steinn Logi.

  Það hafa tvær manneskjur með áratuga reynslu af rekstri flugfélaga, bæði Icelandair og annara félaga, bæði innlendra og erlendra, boðið sig fram í stjórn á næsta aðalfundi í mars. Þetta eru þau Þórunn Reynisdótir og Steinn Logi. Þar sem að nú eru u.þ.b. 14.000 huthafar með mismunandi hátt eignarhald þá hvet ég ykkur, hluthafar góðir, til að hafa á þessu skoðun og styðja þau í komandi kosningum.

  Það er mál að linni “Amen”.

  Auglýsing