LÝÐRÆÐINU STOLIÐ

  Fólkið er lýðræðið heitir þessi mynd Steina pípara.

  Steini pípari sendir myndskeyti:

  Þó heilinn sé eins og fullkomin tölva þá er hann ekki aðeins rökrænn. Hlutar hans vinna á tilfinningum sem annars vegar eru okkur meðfæddar og að hluta uppsöfnuð reynsla sem við jafnvel munum ekki eftir.

  Steini skoðar myndavélina.

  Við tökum ákvarðanir af tilfinningu þegar rök eru ekki til staðar eða okkur finnst einfaldara að velta þeim ekki fyrir okkur. Tilfinningahluti heilans gerir ákvarðanir léttari. Jafnframt er það sá hluti sem er opinn fyrir áróðri. Þegar sami hluturinn er endurtekinn aftur og aftur án þess að vitræni hluti heilans komi með athugasemdir þá festist hann í minni undirmeðvitundar.

  Þegar við tökum ákvarðanir samkvæmt tilfinningu þá móta slíkar minningar ákvarðanir okkar án þess að vitræni hluti heilans geri sér grein fyrir hvað ræður ferð. Auglýsingar og slagorð eru endurtekin aftur og aftur. Þau festast í minni og án þess að við gerum okkur grein fyrir því ráða þær oft vali okkar á ýmsum vörum.

  Verra er þegar gervigreindarforrit hafa sálgreint okkur og mata okkur á upplýsingum sem vitað er að komist fram hjá rökgreindinni og verða síðan ástæðan fyrir pólitísku vali okkar. Sama aðferð er notuð á mikinn fjölda kjósenda og stjórnendur samfélagsmiðla stjórna landinu. Lýðræðið hverfur.

  Auglýsing