LJÓTT AÐ LJÚGA AÐ ALMENNINGI

  "Bara fyrir suma að njóta" heitir þessi mynd Steina pípara.

  Steini pípari sendir myndskeyti:

  Það þykir ekki góður siður að ljúga að almenningi. Þetta kom upp í hugann þegar ég hlustaði á Landann síðasta sunnudag. Margir þættir þar eru til þess að kynna ýmislegt sem fer ekki hátt en er athyglisvert hér á landi. Svo brá við að gerður var áróðursþáttur um umdeildar tillögur um hálendisþjóðgarð. Að vísu var það nefnt að mikil andstaða væri við hugmyndina en engin grein gerð fyrir hvers vegna.

  Steini pípari.

  Umhverfisráðherra hélt því fram að víðtækt samráð væri haft um allar ákvarðanir innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Þetta er ekki rétt. Helstu ferðasamtök hálendisins, Ferðaklúbburinn 4×4 hefur ekkert atkvæði innan garðsins og ekki hlustað á athugasemdir hans. Þá eru ákvarðanir stjórnar mjög öfgafullar og ekki gætt meðalhófs og þær eru ekki bundnar við þann tilgang sem lögin segja til um. Þannig tekur stjórnin sér löggjafarvald.

  Dæmi: Tilgangur þjóðgarðs samkvæmt lögum og því sem umhverfisráðherra segir er að vernda umhverfið fyrir komandi kynslóðir, jafnframt sem hann er opin almenningi svo fremi sem náttúrunni sé ekki raskað. Stjórn þjóðgarðsins bannar drónaflug alls staðar alltaf. Þetta nær til smádróna einstaklinga sem þeir nota til myndatöku og valda engum skaða í umhverfinu. Þvert á móti minnka þeir akstur og umgang og eru því umhverfisvænir.

  Þetta er ekki víðtækt samráð og alls ekki gætt meðalhófs. Stjórnin mun vera að semja reglur um að sækja megi um leyfi til slíkrar myndatöku. Þetta er í samræmi við það sem umhverfisráðherra sagði að væri fyrsti tilgangur garðsins – það er að skapa opinber störf. Eigum við ekki frekar að ráða menn til að naga blýanta. Þeir gera þá ekkert ógagn.

  Auglýsing