LÍKNARDAUÐI RAUNVERULEG LÍKN

  Kveðjustund heitir þessi mynd Steina pípara.

  Steini pípari sendir myndskeyti:

  Það er sorglegt í flestum tilfellum þegar menn taka eigið líf. Í flestum tilfellum er orsökin veikindi hugans. Það er eins og lokist fyrir alla sjálfsbjargarviðleitni og allt verður svart. Mönnum finnst jafnvel að það sé léttir fyrir sína nánustu að þeir hverfi. Slíkar ranghugmyndir má lækna. Gjörbylting hefur orðið í meðferð þunglyndis og aðgangur að sálfræðiþjónustu hefur verið aukin.

  Steini skoðar myndavélina.

  Stundum er óskin um dauðann rökrétt og eðlileg. Þá er ekki um ranghugmyndir eða hugsýki að ræða heldur er það skynsamlegasta í stöðunni að binda enda á lífið. Þetta á við þegar dauðinn er fyrirsjáanlegur og aðeins stuttur kvalafullur kafli eftir sem er gerður þolanlegur með sterkum deyfilyfjum sem gera þennan kafla lítils virði fyrir einstaklinginn og aðstandendur. Slíkur dauðdagi er viðurkenndur í mörgum löndum, kallaður líknardauði vegna þess að hann er raunveruleg líkn.

  Ströng skilyrði eru fyrir aðstoð við slíkan dauðdaga. Aðstandendur vita um ákvörðunina og þeir sem raunverulega elska viðkomandi skilja hana og samþykkja.

  Sumir læknar lýsa andstöðu sinni við líknardauða. Þeirra hlutverk er að líkna þ.e. að gera það sem er sjúklingnum fyrir bestu. Ef hann óskar að fá að deyja með reisn, hann er bær til að taka slíka ákvörðun og hún er skynsamleg þá er það blessun læknanna að fá að verða við slíkri ósk. Íslendingar eru framsækin þjóð og tímabært að móta reglur í þessa veru að fyrirmynd annarra framsækinna þjóða.

  Ég hvet Alþingismenn sem þora að taka á erfiðum málum að koma þessari umræðu á dagskrá þingsins

  Auglýsing