LÍFSHÆTTA Í KRINGLUNNI

    Minnstu munaði að stórslys yrði í Kringlunni um miðjan dag í gær þegar flís úr lofti efstu hæðar verslunarmiðstöðvarinnar losnaði og féll niður þrjár hæðir áður en hún splundraðist í opnu rými á fystu hæð.

    Sjónarvottar segja að engu hafi mátt munað að flísin lenti á konu með ungt barn í kerru sem brá að vonum mjög þegar risaflísin small og brotnaði mélinu smærra á marmaragólfinu þar sem hún var á gangi með barn sitt. Verslunarfólk í nærliggjandi búðum varð að stökkva til að veita konunni aðstoð enda hafði hún fengið taugaáfall og grét án afláts.

    “Þarna mátti engu muna,” sagði ein af afgreiðslustúlkunum sem urðu vitni að atburðinum.

    Um ástæðuna er ekki vitað en telja má víst að nýbúið hafi verið að festa flísina upp í rjáfri Kringlunnar og límið einfadlega gefið sig líkt og gerðist í eimbaði nýju Sundhallarinnar við Barónsstíg þegar allar flísar þar í lofti hrundu niður og áttu sundgestir fótum sínum fjör að launa.

    Auglýsing