LAUNAHÁI BANKASTJÓRINN OG ICESAVE

  Úr fjármálaeftirlitinu:

  Hvaða ábyrgð bar hinn launahái bankastjóri Landsbankans, Lilja Björk Einarsdóttir, á Icesave ruglinu fyrir hrun? Mikið hefur verið rætt um það á samfélagsmiðlum, en sjálf gerði hún lítið úr þætti sínum í viðtali við Viðskiptablaðið þegar hún tók við Landsbankanum fyrir rúmlega tveimur árum. Þar sagðist hún enga sérstaka aðkomu hafa haft að Icesave aðra en þá að hún hafi verið starfsmaður Landsbankans í London þegar þeir voru kynntir. Hún sagðist meðal annars hafa stýrt rekstrardeildum bankans í London og uppbyggingu þeirra.

  Meðal rekstrardeildanna sem Lilja Björk sá um var markaðsdeildin sem hafði það verkefni að fá fólk til að leggja fjármuni sína inn á Icesave reikningana. Jónas heitinn Kristjánsson blaðamaður var á sínum tíma ekkert að skafa af skoðun sinni á aðkomu Lilju að Icesave svínaríinu. Í pistli á vefsíðu sinni jonas.is skrifaði hann:

  “Frægð Lilju Bjarkar Einarsdóttur var mest, er hún markaðssetti illræmda IceSave reikninga Landsbankans í Bretlandi 2006-2008. Nú orðin bankastjóri Landsbankans, leysir Steinþór Pálsson af hólmi. Hann var líka frægur að endemum. Þetta eru sýnishorn af mistökum stjórnvalda eftir hrun. Ráðherrum vinstri og hægri stjórna hefur mistekizt að endurreisa bankana. Þeir eru undir stjórn nákvæmlega eins fjárglæfrasnillinga og fyrir hrun þeirra. Þeir hafa ekki orðið bankar fyrir fólk. Hafa aldrei áður níðst eins mikið á almenningi og þeir hafa gert síðustu árin. Meðan þeir hjálpa glæframönnum Mammons að skipta um kennitölur eins og sokka.”

  Ekki hefur aðkoma Lilju að Icesave þó komið í veg fyrir frama hennar í bankakerfinu og núna er hún bankastjóri Landsbankans nýbúin að fá tvær ríflegar kauphækkanir. Komin með samtals 3,7 milljónir í mánaðarlaun og er þar með launahæsti starfsmaður íslenska ríkisins.

  Auglýsing
  Deila
  Fyrri greinSAGT ER…
  Næsta greinSJÓÐHEIT Í POTTI