LÁTIÐ OKKUR BÍLEIGENDUR Í FRIÐI!

  Bréf frá lesanda:

  Þessi yfirskrift er hugsuð til stjórnenda Reykjavíkurborgar sem með ofstjórn sinni og baráttu gegn einkabílum gerir íbúum borgarinnar sífellt erfiðara að komast leiðar sinnar. Allar helstu umferðaræðar borgarinnar eru í dag tepptar á háannatíma og getur tekið hátt í klukkustund þegar verst lætur að komast úr miðborginni í Breiðholtið eða nágrannasveitarfélögin..

  Hugmyndir Borgarstjóra og hans hyskis eru ýmist á þá leið að almenningur geti bara gengið, hjólað eða ferðast með almenningssamgöngum. Einstaka menn geta nýtt sér þessar lausnir, u.þ.b. 4 % borgarbúa hentar að nota strætisvagna eða eiga ekki annarra kosta völ og nokkrir geta hjólað eða gengið til vinnu sinnar þegar veður leyfir og sinnt öðrum þeim erindum sem upp koma daglega s.s. að koma börnum á leikskóla í nágrenninu og kaupa í matinn.

  Allar hugmyndir um borgarlínu eru fjarstæðukenndar að teknu tilliti til kostnaðar og þess hversu fáum hún myndi henta því hún er í raun aðeins hraðskreiður „strætisvagn“ sem hentar 4 % borgarbúa.

  Mín hugmynd til að bæta ástandið og efla um leið almennt heilbrigði borgarbúa er að stórbæta allar hjóla- og gönguleiðir og byggja síðan yfir allan pakkann úr gagnsæjum efnum. Vel mætti hugsa sér að leggja hitaleiðslur í malbikið og led ljós í þakið til að gera þetta meira aðlaðandi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að miklu fleiri myndu nýta sér þennan ferðmöguleika s.s. eigendur rafmagnshjóla ef hlúð yrði að honum með þessum hætti. Auk þess myndi þetta bara kosta brot af kostnaði við borgarlínu sem er fyrirfram dauðadæmd. Aðrir sem ekki komast hjá því að nota bíla myndu gera það áfram og vera mun öruggari um að keyra ekki yfir gangandi og hjólandi vegfarendur sem eru í raun stórhættulegir við þær aðstæður sem í dag er boðið upp á.

  Það eina sem langstærstur hluti borgarbúa vill og sem ekur um á bílum er að vera látinn í friði með sinn lífstíl sem kemur þó ekki til af góðu.

  Hundleiður kjósandi og bíleigandi.

  Auglýsing