KVENNASLAGUR UM SPILLINGU

  Úr herbúðum hægrimanna:

  Skipanir í æðstu embætti innan stjórnsýslu einkennast af klíkuskap og spillingu óháð því hvaða flokkur situr í stjórn. Lilja Alfreðsdóttir stefndi skrifstofustjóra forsætisráðuneytisins vegna úrskurðar kærunefndar jafnréttismála um að Lilja sem ráðherra hefði brotið á Hafdísi Helgu Ólafsdóttur skrifstofustjóra í forsætisráðuneytingu þegar hún skipaði Pál Magnússon ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu en ekki umræddan skrifstofustjóra. Lilja benti á það í víðtali á Sprengisandi um helgina að eina leiðin sem væri fær réttarfarslega til að fá úrskurð kærunefndar jafnréttismála ógiltan væri að stefna Hafdísi skrifstofustjóra, sem hefði átt frumkvæði að málinu og úrskurðurinn féll í vil. Lilja benti enn fremur á hvað málið væri snúið því þessi Hafdís skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu sem hún hefði stefnt væri yfirmaður ríkislögmanns. Lilja benti enn fremur á það að sá flokkur sem færi með himinskautum vegna þessara málaferla væri Viðreisn þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir væri formaður en systir hennar, Karítas Gunnarsdóttir, sem er þegar í toppstöðu í menntamálaráðuneytinu var einn umsækjenda um ráðuneytisstjórastöðuna.

  Þá benti Lilja á spillingu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem hefði síðastliðið vor skipað Bryndísi Hlöðversdóttur fyrrum þingmann Alþýðubandalags sem ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu án undangenginnar auglýsingar og í trássi við lög sem sett voru í Jóhönnu og Steimgríms-stjórninni um stjórnarráðið til að bæta ímynd stjórnsýslunnar í öllu spillingarfeninu. Lög nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands kveða á um að ráðherra skipi ráðuneytisstjóra að fengnu mati hæfnisnefndar. Það þýðir að auglýsa verður stöðuna. Ráðuneytisstjórar eru æðstu stjórnendur Stjórnarráðs Íslands, að ráðherrum sjálfum undanskildum, og því eðlilegt að samræmi sé viðhaft við skipanir þeirra m.a. til að tryggja enn frekar en nú er að ákvarðanir um skipan þeirra séu byggðar á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum. Fréttastofa hringbrautar (Viðreisnar) kallar Bryndísi Hlöðversdóttur hinn dýra farandgrip vinstri manna – sjá hér – en hún hefur fengið hvert fína djobbið á fætur öðru vegna pólitískra tengsla sinna.


  Píratar eru í forsæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis en Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sem gekk á forsætisráðherra vegna skipunar Bryndísar segir í Morgunblaðinu í dag þar sem er gerð úttekt á stöðuveitinga-spillingunni að hún telji þetta mál þarfnast frekari skoðunar. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis er undir forsæti Pírata en Þórhildur Sunna gaf í skyn þegar hún lét af formennsku í þeirri nefnd að arftaki hennar Jón Þór Ólafsson yrði væntanlega ekki eins afgerandi í því embætti og hún hefði verið.

  Umboðsmaður Alþingis kvartar undan því að peningaleysi standi í veg fyrir því að embætti hans geti sinnt frumkvæðisskyldu og því væntanlega bið á því að hann skoði svona spillingarmál. Á meðan skiptast ráðherrar á skeytum eins og segir í Morgunblaðinu í dag.


  Ísland er spilltasta ríkið á Norðurlöndum áttunda árið í röð samkvæmt úttekt Transparency International (2019). Kannski að einhver geti rétt kúrsinn fyrir kosningarnar 2021 í stað þess að benda hver á annan? Eða áframsenda farandbikarinn? Boltinn er hjá Pírötum núna ef þeir ætla að sýna sig vera öðruvísi. Bent er á í röðum hægrimanna að Píratar muni ekkert gera til að rugga fjórflokknum í aðdraganda kosninga þar sem þeir hyggi á stjórnarsetu í kjölfar þeirra með Viðreisn, Samfylkingu og Vinstri Grænum.

  Auglýsing
  Deila
  Fyrri greinKALLI VILL KRÁ
  Næsta greinSKODA (181)