“Ég ætla leyfa mér að forvitnast ögn hér ef einhver skyldi vita varðandi kríuna,” segir Helgi Jóhann Hauksson:
–
“Hér fyrir utan gluggann minn þar sem ég hef skrifborðið mitt á heimili mínu efst á Setbergshæðinni, er lúpínubreiða sem þekur mest allt óbyggt yfirborð hæðarinnar (sem ég elska). En nú í tvö sumur hef ég orðið þess áskynja að reglulega koma kríurnar, stundum ein eða tvær en líka stundum tíu og tuttugu saman og skanna breiðuna, og dífa sér í lúpínuna eins og breiðan væri vatn eða sjór og kippa með sér einhverju æti (ótrúleg aðlögunarhæfni). — En daginn sem jarðskjálftarnir hófust í Grindavík, síðustu daga júlí, sem við fundum vel hér, þá hvarf krían og hefur ekki ein einasta sést hér síðan.
–
Getur verið að hún hafi látið sig hverfa af landinu vegna jarðskjálftanna? í það minnsta þær sem áttu athvarf hér á suð-vestur horninu — og fleyga unga?
–
Hvað segja aðrir sem hafa fylgst með kríum á Reykjanesi, hafa þeir líka orðið varir við að hún hyrfi og kæmi ekki aftur eftir að jarðskjálftahrynan hófst og svo gosið?
–
Svo er hin spurningin, hafa menn víðar orðið varir við að krían sækti sér „skyndibita“ í lúpínubreiður? Veit einhver þá hvað það er sem hún sækir í?”