KOMUM ÍSLANDI AFTUR Á KORTIÐ – NÚ REYNIR Á

  Auglýsingar, kynning, uppákomur sem vekja athygli, word of mouth (orðspor ), áhrifavaldar, podkast, twitter, instagram, facebook – hvað virkar?

  Henri Ford, bílaframleiðandinn sem var uppi á fyrri part síðustu aldar er frægur fyrir hnitmiðuð tilsvör og staðhæfingar – quotes / orðatiltæki / málshætti. Hann sagði til dæmis: “If you think you can or if you think you can´t, either way you are right”, með öðrum orðum: Hvort sem þú heldur að þú getir eða getir ekki, þá hefurðu rétt fyrir þér. Hann sagði líka: “Mér er alveg sama hvernig þið málið bílana mína, bara að þeir séu svartir”. En það sem ég ætla að staldra við er þessi frábæra pæling um auglýsinar: “Ég veit að helmingurinn af öllu sem ég eyði í auglýsingar fer í tóma vitleysu, ég veit bara ekki hvor helmingurinn það er”.

  Núna stöndum við frammi fyrir vandasömu verkefni og það er að koma Íslandi aftur á kortið sem ferðamannaparadís. Hvernig förum við að því? Í hvaða stöðu erum við raunverulega? Af hverju var Ísland inn? Hvað varð þess valdandi að hingað flyktust ferðamenn svo miljónum skipti. Þetta gerðist mjög hratt – má segja á 10 til 15 árum.

  Ef við teyjum lopann, lítum til baka og skoðum eru nokkrir aðilar og atriði sem voru ekki plönuð en gerðu það að verkum að við vöktum athygli. Má þar nefna Vigdísi forseta, Björk, Eið Smára, Sigurrós, Sykurmolana, Of monsters and men og nú síðast Kalíó, Eyjafjallajökul, handboltalandsliðið, fótboltalandsliðið svo eitthvað sé nefnt. Þetta bara gerðist bara óundirbúið. Bláa lónið, Gullfoss og Geysir og hrífandi náttúrufegurð er ekki nóg.

  Vigdís var einstök. Fáir þjoðhöfðingjar jafnast á við hana nema kannski Mandela. Björk gerði allt vitlaust með svanakjólnum sem setti punktinn yfir iið á feril hennar. Eiður Smári var svo frægur að þegar ég var staddur í Bangkok fyrir nokkrum árum gerðist það tvisvar sada daginn, á sitthvorum staðnum, að menn hrópuðu upp yfir sig “Guðjohnsen” þegar ég sagðist vera frá Íslandi. Ég var í Þýzkalandi á tímum Eyjafjallagossins og þreyttist fólk ekki á að spyrja mig um og biðja mig að bera fram “Eyjafjallajökull “.

  En hlutir gleymast og það fennir í sporin. Allt í einu koma upp atburðir sem skyggja á allt sem á undan er gengið. Kórónaveiran kórónar allar neikvæðar uppákomur sem hægt er að hugsa sér. Fólk fer að hugsa um allt aðra hluti en að ferðast en þegar það gerist þá er mikið atriði að það muni eftir Íslandi.

  Svo það er stórt verkefni framundan að koma Íslandi aftur á kortið. Ríkisstjórnin ætlar að setja háar fjárhæðir í landkynningu sem er jákvætt enda ef við lítum bara á allan virðisaukaskattinn sem ríkissjóður fær af verslun og viðskiptum frerðamannana þá væri það furðulegt ef hún (ríkisstjórnin) væri ekki til í að leggja eitthvað í púkkið.

  En hvernig á að verja þessum peningum? Í gamla daga þegar ég sá um félagsheimilið Festi í Grindavík þá voru sveitaböllin uppistaðan í rekstrinum. Eina sem ég þurfti að gera var að setja nokkrar lesnar auglýsingar í Ríkisútvarpið i 3 daga og eina tveggja dálka auglýsingu í Moggann á laugardegi og þá vissi allt landið að Hljómar, Haukar eða Júdas voru að spila í Festi það kvöldið. Nú er öldin önnur, engin les blöin, það eru 30 útvarpsstöðvar og allt fullt af podköstum og áhrifavöldum svo ég tali nú ekki um Twitter, Facebook og Instagram – you name it.

  Hvernig er þetta þá úti í heimi? Hvernig náum við til þeirra sem skipta máli? Það er sagt að það sé ein útvarpsstöð í heiminum sem allir eru að hlusta á en allar stöðvar heita eitthvað BLA BLA BLA FM. Þessi stöð sem allir eru að hlusta á heitir WIIFM sem útlegst ” whats in it for me?” Sem sagt, það eru allir að hugsa um eigið skinn sem er eðlilegt.

  Hvernig förum við að vekja athygli á því að Ísland sé æðislegt? Nú reynir á.

  Auglýsing