KODAK Í KLÍPU

Kodak er að verða til vandræða í hverfinu.
Kodak bíður átekta við steinvegg Landakotstúnsins.

Hvítur köttur með rauðan prestkraga hefur truflað líf íbúa í götum suður af Kaþólsku kirkjunni við Túngötu. Kötturinn smýgur inn í öll hús þar sem glufa er og gerir sig heimakominn. Fólkið í hverfinu ræðir sín á milli hvernig best sé að verjast kettinum og einn þykist vita að kötturinn heiti Kodak. En hvar heimili hans er veit enginn en hegðun hans bendir til að hann sé að leita sér að nýjum heimkynnum.

Kodak er vel á sig kominn með gljáandi feld en eitthvert er óyndið. Sálfræðingur í einni götunni telur hann greindarskertan á meðan landfræðingur í annari götu segir hann áttavilltan og þá munu kaþólsku prestarnir vera farnir að biðja fyrir honum.

Síðast fannst hann í læstri geymslu í kjallara glæsivillu í hverfinu sem sem enginn hafði komið í um árabil. Hvernig hann komst þangað er óráðin gáta.

Auglýsing