JÓN AXEL Á TOPPINN Í DÖNSKUM BALLET

  "Þegar hann dansar, skín sól á sviðinu og þegar hann tekur sín ótrúlegu stökk þá er það líkt og Hekla gjósi."

  Frá Kaupmannahöfn:

  Það var veisla á sviðinu í óperuhúsinu í Kaupmannahöfn í gærkvöldi. Eftir glæsilega frumsýningu á AfteRite og Etudes steig Nikolaj Hubbe á svið og kynnti íslendinginn Jón Axel Fransson sem sólódansara (principal dancer) við ballettinn en staða sólódansara er æðsti heiður sem sýndur er ballettdönsurum.

  Nikolaj sagði að stjarna kvöldsins hefði hæfileika, hugmyndaflug, bæri skynbragð á tónlist og guðdómlegan stökkkraft. Hann væri alinn upp sem klassiskur ballettdansari en hefði einnig mikla hæfileika sem nútímadansari. Þetta gerði það að verkum að Jón Axel væri á óskalista hjá öllum helstu danshöfundum í dag. Þegar hann dansar, skín sól á sviðinu og þegar hann tekur sín ótrúlegu stökk þá er það líkt og Hekla gjósi.

  Jón Axel

  Jón Axel fæddist á Íslandi en fluttist ungur til Danmerkur með móður sinni og systur. Átta ára hóf hann nám við Konunglega Danska ballettinn. Eftir það hefur ekki verið aftur snúið og dans hefur verið hans áhugamál og starf frá unga aldri.

  Jón Axel hefur unnið til verðlauna fyrir dans sinn og var á árinu 2018 útnefndur og valinn besti dansari Danmerkur og hlaut Reumert verðlaunin sem tileinkuð eru sviðslistum. Það að komast í fremstu röð hjá alþjóðlegum dansflokk eins og Konunglega Danska ballettinum hefur kostað marga fórnina fyrir Jón Axel þar sem dansinn og undirbúningur fyrir sýningar hefur þurft að ganga fyrir öllu. En uppskeran hefur líka verið í samræmi við þá vinnu sem lögð hefur verið í verkefnið og nú hafa íslendingar eignast ballettdansara á heimsmælikvarða sem dansar um allan heim.

  Auglýsing