JAKKAFATAKLÆDDIR BORGARSTARFSMENN OPNUÐU FYRIR BÍLAUMFERÐ UM MIÐBÆINN

  Þessi ók niður Skólavörðustíginn síðdegis eins og ekkert væri.
  Hildur kjólameistari á Skólavörðustíg ásamt Ófeigi eiginmanni sínum.

  “Þeir mættu hingað í götuna, jakkafataklæddir borgarstarfsmenn um eittleytið og opnuðu hliðið sem aftrað hefur bílaumferð. Ég er ánægð með en þetta hlýtur að vera verkfallsbrot,” segir Hildur Bolladóttir kjólameistari og eiginkona Ófeigs Björnssonar gullsmiðs á Skólavörðustíg.

  Jakkafataklæddu borgarstarfsmennirnir létu sér ekki nægja að opna Skólavörðustíginn heldur opnuðu einnig Laugaveginn eins og hann leggur sig.

  Hliðin sem aftra bílaumferð í miðbænum eru höfð opin í fjóra tíma á morgnana, frá sjö til ellefu, fyrir vöruafgreiðslu og þeir borgarstarfsmenn sem séð hafa um þetta eru í Eflingu og hófu verkfall á miðnætti og því voru hliðin ekki opnuð í morgun – fyrr en jakkafataklæddu borgarstarfsmenn mættu upp úr hádegi og galopnuðu allt.

  Eitthvað voru bílstjórar þó hikandi við að aka niður Skólavörðustíginn og Laugaveginn enda orðnir vanir lokun sem mikill styrr hefur staðið um milli verslunareigenda og borgaryfirvalda.

  Laugavegurinn galopinn fyrir bílaumferð en bílstjórar feimnir við að aka hann.
  Auglýsing