JAFET NAUÐGAÐ FYRIR 15 ÁRUM

  "Ég vildi óska þess að @KjaftadumKynlif hefði getað komið í skólann minn í staðinn fyrir þetta korter sem við fengum í að læra að setja smokk á banana."

  “Þegar mér var nauðgað fyrir um 15 árum hélt ég að það væri mér að kenna af því ég vissi bókstaflega ekkert um kynlíf og samþykki. Ég þaggaði niður í sjálfum mér og skammaðist mín heillengi fyrir að vera svona ógeðslegur. Skömmin kom að mjög miklu leiti frá þöggun í samfélaginu,” segir Jafet Sigfinnsson á Seyðisfirði.

  “Af því hinsegin kynlíf var mjög taboo á þessum tíma (og er jafnvel enn upp að vissu marki). Mér leið ömurlega fyrir að vera ekki eins og allir hinir því það var enginn til að segja mér að þetta væru eðlilegar tilfinningar og að skömmin væri ekki mín að bera.

  Ég veit í dag að ég gaf ekkert samþykki, jafnvel þó ég hafi kannski verið smá skotinn í honum en á tímanum fannst mér það nóg til að taka á mig ábyrgðina af því sem hafði skeð. Ég var 16 ára og allt sem ég vissi hafði ég lært af netinu og umhverfinu. Svo margt rangt.

  Almennileg kynfræðsla hefði hjálpað. Ég var dauður áfengisdauða svo auðvitað gaf ég ekki samþykki en í huga ungs homma í afneitun var þetta ekki svona augljóst. Mín kynfræðsla fór aldrei yfir þessa hluti. Ég hélt að ógeðslegi homminn ég hafði tælt gagnkynhneigðan mann.

  Ég vildi óska þess að @KjaftadumKynlif hefði getað komið í skólann minn í staðinn fyrir þetta korter sem við fengum í að læra að setja smokk á banana. Þá hefði ég kannski fattað strax að þetta var ekki mér að kenna í staðinn fyrir að burðast með skömmina í 10 ár.

  Það er ekki á ábyrgð Siggu að kynfræðslu í skólum landsins er ábótavant en hún er enginn nýgræðingur og vinnur alla sína vinnu af varkárni og virðingu og hún veit jafn vel og við að skömm og þöggun er ekki málið og skapar fleiri vandamál en það leysir.

  Takk Sigga fyrir allt sem þú hefur gert og átt eftir að gera. Takk fyrir að leggja áherslu á að minnka skömm í kring um kynlíf. Takk fyrir að eiga einlæg og falleg samtöl um samþykki og persónuleg mörk. Það mættu fleiri hugsa eins og þú. Þú ert dýrmæt.”

  Auglýsing