ÍSLAND VANDRÆÐALEGA UNDIRMANNAÐ

    “Ég fæ það ekki til að ganga upp hvernig við getum horft á þorp leggjast í eyði um allt land vegna fámennis og fólksflótta en á sama tíma staðið í pontu erlendis og sagt að við séum ekki aflögufær eða tilbúin til að taka við fólki á þeim grundvelli að það sé á flótta,” segir Guðmundur Gunnarsson fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði.

    “Fyrir vikið bítast þorpin innbyrðis um fólk. Reita fjaðrirnar hvert af öðru og rífast um hverjar 7 sálir. Í landshlutum sem gætu hæglega rúmað 70 þúsund sálir. Þetta er stóra þversögnin um plássið í plássunum. Við eigum nefnilega ekki nóg með okkur sjálf þótt sumum finnist það. Á Vestfjörðum, þar sem ég þekki til, hefur heilu samfélögunum verið haldið gangandi af fólki sem fæddist utan Íslands. Það er staðreynd. Án þeirra væru þorpin horfin. Krossviðsplötur fyrir gluggum í sorglegum draugabæjum. Hegðun ráðamanna í umræðunni er jafnan pínleg og máttfarin. Stíga stoltir fram á tyllidögum og hampa fjallkonu af erlendum uppruna en hverfa svo undir lampaskerma þegar henni er sparkað úr landi. Skortir kjark til að ræða heildarmyndina þrátt fyrir augljósan efnahagslegan ábata. Auðvitað þurfa að vera einhverjar reglur. Ég skil það. En er ekki rétt að við, sem afkomendur fólks á flótta, veltum fyrir okkur stöðu okkar og tækifærum sem felast í fólksfjölgun og fjölbreytni. Setjum fleiri breytur inn í gjaldþrota umræðu um innflytjendur. Það er beinlínis órökrétt að láta ótta við allt og alla, sem eru ekki nákvæmlega eins og þeir örfáu sem fyrir eru, stjórna allri umræðu. Ísland er vandræðalega undirmannað.”

    Auglýsing