ILMANDI ÆVINTÝRI MÚSLIMA

  Sverrir Agnarsson, fyrrum foringi íslenskra múslima, lenti í ferðaævintýri án hliðstæðu á dögunum þegar hann ætlaði að fljúga heim frá Kaupmannahöfn þar sem hann hafði dvalið við aðstoða son sinn sem rekur þar fyrirtæki.

  Þegar heim átti að halda var ekki hægt að fá flug fyrir neitt annað en ofurprís og skuldinni skellt á fall WOW.

  En Sverrir fann leið, að fljúga til Póllands og þaðan heim fyrir brot af því sem sett hafði verið upp í Höfn.

  “Þegar ég var kominn á flugvöllin í Gdansk og búin að tékka inn settist ég niður með bók og beið brottfarar sem var eftir 50 mínútur eða svo. Kom þá gömul kunningjakona mín af Skjá einum, Ilmur Kristjánsdóttir leikkona, og tókum við tal saman. Og töluðum svo mikið að við misstum af flugvélinni,” segir Sverrir sem þarna leist ekki á blikuna.

  Nú voru góð ráð dýr. Ilmur og Sverrir fundu annan flugvöll og aðra vél en það kostaði níu tíma rútuferð sem þau skelltu sér í. Og héldu áfram að tala og komust loks heim.

   – Græddirðu eitthvað á þessum sparnaði?

  “Ég veit það ekki, á eftir að taka það saman, en það var gaman að hitta Ilmi.”

  Auglýsing