HVAR ER KLUKKAN? HÚN FAUK!

    Sundlaugargestur tiplar yfir leifarnar af Ikeaklukkunni sem fauk í rokinu í gær.

    Í gær þýddi ekkert að spyrja pottverja í Suðurbæjarlaug hvað klukkan væri heldur frekar: Hvar er klukkan? Hún fauk út í veður og vind í rokinu með braki og brestum. Sveinn Markússon járnsmiður og listamaður var í lauginni og lýsir svona:

    Járnsmiðurinn á forsíðu Moggans fyrir nokkrum árum.

    “Þetta var fyndið! Hvar er klukkan?” Ikea veggúrið fauk af veggnum á milli heitapotts tvö og þrjú í gær í rokinu. Veggúrið fór í sundur og glerið brotnaði með braki og brestum er það lenti á milli potta og glerbrot, plast og stöku rafhlaða lá eins og brotinn flugdróni á gólfinu. Glerið hárbeitt!

    Ég vatt mér upp úr potti þrjú, sem er sá heitasti og tók í faðm málm og gler eins og ég gat og færði sundyfirvöldum í búrinu, með munnlegri skýrslu um hvað hafi gerst og að nú þyrfti að sópa upp gler og annað brak á milli potta! 

    Svo gekk ég beinn í baki og með bumbuna dregna inn í anda Charlton Heston að potti þrjú og því framhjá potti tvö þar sem glás af pottverjum, allir af karlkyni, sem höfðu orðið vitni af flugslysi veggúrsins sænska, horfðu á mig þöglir. Ég sagði við hópinn sem hafði verið í hörku samræðum rétt áður, að ég hefði hringt í Terra sem sér um sorphirðu í Hafnarfirði 2023 og ég ætti von á þrifum eftir um það bil tvær vikur. Dagur í lífi syndandi smiðs.”

    Auglýsing