HUNDAGERÐIÐ SEM GUFAÐI UPP

“Niðurstaða hverfiskosningar í Vesturbænum 2018 var að setja hjólabraut við Grandaskóla og hundagerði við Vesturbæjarlaugina. Nú er komin hjólabraut við Vesturbæjarlaugina á nákvæmlega þeim stað sem hundaeigendur í Vesturbænum koma með hundana sína til að leyfa þeim að hittast og hlaupa. Aftur á móti ekkert hundagerði,” segir Ólafur Hauksson almannatengill og fyrrum ritstjóri og heldur áfram:

Ólafur Hauksson

“Skiljanlega eru hundaeigendur ósáttir. Engin hefur útskýrt hvers vegna hjólabrautin var ekki sett niður við Grandaskóla, né hvers vegna reynt var að troða henni í skjóli nætur við Sörlaskjól. En það tókst að koma henni fyrir í skjóli nætur á hundatúninu við Vesturbæjarlaugina. Svolítið skrítið íbúalýðræði.

Áhugavert væri að fá svör við því hvenær borgin keypti þessa hjólabraut, af hverjum hún var keypt og hvers vegna það liggur svona lífið á að koma henni fyrir. Ekki var hún ódýr, kostaði 8 milljónir króna.

Aftur á móti held ég að hundaeigendur ættu að fagna því að fá ekki hundagerði, a.m.k. ekki eins og borgin hefur verið að setja upp. Svæðið við Vesturbæjarlaug þar sem hundarnir hafa verið að hlaupa á er rúmlega 2.000 fermetrar. Hundagerðin þrjú sem er að finna í Reykjavík eru 600 fermetrar hvert, allt of lítil til að hundarnir nái eitthvað að hlaupa og leika sér. Meira að segja plássið sem eigendur þriggja húsa við sundlaugartúnið hafa tekið til sín og girt í óleyfi er um 1.000 fermetrar.

Ef þessar hverfakosningar eiga að vera annað en til að þykjast, þá ætti borgin að sjá sóma sinn í að girða hundatúnið af, minnst 2.000 fermetra, og færa hjólabrautina annað. Til dæmis kæmist hún hæglega fyrir hinum megin við sundlaugina, þar sem er púttvöllur sem fáir ef nokkrir virðast nota.”

Auglýsing