HUMARPRINS VERÐUR BJÓRKÓNGUR

  Einn flinkasti veitingamaður landsins og farsælasti, Jón Tryggvi Jónsson, hefur söðlað um svo um munar og keypt eina elstu bjórkrá landsins, Ölver í Glæsibæ, stofnuð 1984.

  Jón Tryggvi byggði upp humarstaðinn Fjöruborðið á Stokkseyri, sem er svo gott sem heimsfrægur, keypti svo Humarhúsið á Bernhöftstorfunni sem hann nefndi Torfuna, þá yfir í Lækjarbrekku í Bankastræti og nú er það Ölver í Glæsibæ.

  Jón Tryggvi í Ölveri.

  “Mig langar að gera þetta að tónlistarstað og vera með alls konar viðburði, árshátíðir og annað því nægt er plássið,” segir Jón Tryggvi en í Ölveri er veislusalur fyrir 150 manns, fimm breiðtjöld fyrir íþróttaviðburði, 20 sjónvarpsskjáir og hægt að sýna níu leiki í einu.

  Ölver opnar klukkan tíu á morgnana og er opið fram á rauða nótt.

  “Hingað vil ég fá fólk,” segir Jón Tryggvi sem sett hefur þjónabúninginn á hilluna og kann vel við sig í gallabuxum, bol og strigaskóm við bjórdæluna sem tæmist aldrei.

  Auglýsing