HÖFÐINGI FALLINN FRÁ – KVEÐJA

  Úlfar Nathanaelsson fjársýslumaður og heimspekingur var kvaddur af ættingjum og vinum á fimmtudaginn í Grafarvogskirkju. Í dag birtust þessi minningarorð meðal annarra í Morgunblaðinu:


  Ég var sex ára, nýfluttur heim
  frá Svíþjóð, hafði aldrei komið til
  Íslands áður og nýja heimilið var
  í blokk á Kleppsvegi 16.

  Ég var fljótur að ná áttum.
  Róluvöllur á hægri hönd þegar
  maður kom út og stígur upp á
  Brekkulæk á vinstri hönd. Þetta
  var allur minn heimur og þótt
  róluvöllurinn væri ágætur var ég
  spenntari fyrir stígnum upp á
  Brekkulæk því þar við enda
  stígsins var sjoppa í nýbyggðri
  verslunarmiðstöð sem þjónaði
  hverfinu.

  Stundum fékk ég gefins smáaur til að fara í sjoppuna og ef
  ekki hnuplaði ég klinki úr buddu
  mömmu því í sjoppuna vildi ég
  fara. Þar fékkst þessi fíni lakkrís
  með marsipanfyllingu, gott ef
  hann hét ekki Appoló. Fyrsta
  freisting mín og fíkn.

  Maðurinn í sjoppunni var stórglæsilegur, svartklæddur með
  skyrtuna fráhneppta á þriðju
  tölu og hrafnsvart hárið smjörgreitt aftur. Hann sýndi litla
  drengnum með smáaurana vinsemd og setti alltaf meira í pokann en ég átti að fá. Baka til var kona hans að sýsla í hillum, kasólétt fegurðardís, og saman
  minntu þau á kvikmyndastjörnur
  sem Íslendingar sáu hvergi
  nema í dönsku blöðunum.

  Seinna komst ég að því að þau
  hétu Úlfar Nathanaelsson og Ásdís Erlingsdóttir. Hitti þau ekki
  aftur fyrr en hálfri öld síðar þegar þau urðu tengdaforeldrar
  mínir. Litla barnið í maga móður
  sinnar í sjoppunni þegar ég var
  að kaupa lakkrísinn sex ára varð
  eiginkona mín 50 árum síðar.
  Kannski hefur ófædda barnið
  heyrt rödd mína, feimna og lágstemmda, þegar ég bað um
  lakkrís á bjagaðri íslensku? Alla
  vega var eins og Peta, ástin mín,
  eiginkona og dóttir Úlfars og Ásdísar í sjoppunni á Brekkulæk,
  hefði þekkt mig alla tíð þegar
  augu okkar mættust í fyrsta
  sinn.

  Svona er lífið, það tekur sinn
  tíma og svo lýkur því. Blessuð sé
  minning þeirra beggja, Úlfars og
  Ásdísar.

  Eiríkur Jónsson.

  Auglýsing
  Deila
  Fyrri greinJÓI (41)
  Næsta greinWHAT HAVE I DONE?