HJÓLADÓNAR Í KÓPAVOGI

    “Í morgun fórum við hjónin í gönguferð eftir göngustígum bæjarins eins og við gerum nokkuð reglulega. Veðrið var yndislegt og stemmingin góð þangað til við urðum fyrir „árás“ frá latexdressuðum hjóladónum,” segir Björn Jónsson á vefnum Kársnesið okkar.

    Björn Jónsson

    “Við gengum niður brekku og dauðbrá þegar reiðhjól sem gert er fyrir hraðakstur á umferðargötum, en ekki gangbrautum, þaut framúr okkur án þess að nokkur viðvörun væri gefin og í kjölfarið komu tveir aðrir hjólamenn á sama hraða (örugglega 50-60 km). Þegar konan mín kallaði upp í hræðslu „Er ekki allt í lagi með ykkur“ þá lyfti sá aftast í hópnum upp hendinni og setti löngutöng upp í loftið (Fuck you). Skilaboðin voru skýr – Göngulúðar eiga ekki þvælast fyrir hjólafólki. Áður en við gætum brugðist frekar við voru þessar þrjár ungu konur horfnar á braut og ég er nokkuð viss um að fleiri vegfarendur hafi fengið sömu skilaboð frá þessum hópi þennan morguninn.

    Ég tel löngu tímabært að setja hraðahindranir á göngustíga þar sem gangandi og hjólandi eiga samleið (eða að grípa til annarra úrræða) og legg til að byrjað verði á að gera úrbætur í brekkunni sem liggur frá menningarhúsunum, fram hjá Sunnuhlíð og niður að Kópavogstúni, því þar skapast oft mikil hætta. Ég vil taka það skýrt fram að ég er mjög fylgjandi hjólreiðum, sem eru umhverfivænn ferðamáti og gefa hjólafólki góða hreyfingu og útivist en ég geri þá kröfu að farið sé varlega um og samferðafólki sýnd tillitsemi og virðing. Það er hins vegar mín skoðun að „hrað hjólreiðar“ (racing) eigi heima á umferðargötum en ekki á göngustígum, þetta eru jú göngustígar.”

    Auglýsing