HEIMA ER BEST – MEÐ HAMBORGARA

  Í dag, 28. maí, er Alþjóðlegi hamborgaradagurinn, National Hamburger Day.

  Að nafninu til er ég lærður matreiðslumaður með meistararéttindi en í raun kann ég ekki mikið að elda. Það sagði einn af meisturum mínum, Ólafur Tryggvason, hérna um árið þegar ég var að læra hjá Loftleiðum uppi á Keflavíkurflugvelli: “Tómas getur ekki soðið rakvatn án þess að brenna það við.” Svo sagði annar: “Tómas er með 15 þumalputta og 3 vinstri hendur.” Þeir höfðu báðir rétt fyrir sér.

  Ég fékk strax áhuga á að verða veitingamaður þannig að ég setti allt kapp í að undirbúa það þó svo ég hafi unnið í ein 7 ár i eldhúsum bæði hér, í Los Angeles og Þýskalandi. Það var samt góður undirbúningur undir það sem síðar kom.

  Ég fór til Ameríku að læra hótel og veitingarekstur í Florida International University, FIU, og útskrifaðist þaðan vorið 1979 með BS gráðu (eða þannig), hafði uppi háar hugmyndir um að opna steikhús með stæl en af þvi Bakkus truflaði frama minn og persónulegt líf þá stóð ég uppi atvinnulaus og einmana haustið 1980, nýkominn úr meðferð.

  Eina sem mér bauðst þá var að steikja hamborgara sem mér fannst nú svona mátulega spennandi. En þegar Þórir á Matstofu Austurbæjar bauð mér að aðstoa sig við að opna “Winnys” sem var lítill hamborgarastaður á Laugaveg 116 rétt fyrir neðan Hlemm þá sló ég til og komst að því að þetta átti bara vel við mig.

  Svo það varð úr að ég opnaði Tomma hamborgara á Grensásvegi 7 í mars 1981. Á þremur árum voru seldir ein milljón hamborgara. Þá seldi ég fyrirtækið og fór af stað í allskonar, sumt gott, annað ekki eins gott gekk, upp og niður, en alltaf gaman og spennandi. Hef alltaf verið heppinn með starfsfólk og meðreiðarsveina/sveinur í gegnum tíðina. Án þeirra hefði nú lítið skeð.

  Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið, fullt af hlutum skeð, t.d. Hard Rock Cafe í Kringlunni, Potturinn og Pannan, Amma Lú, Skuggabarinn, Glaumbar, Kaffibrennslan og Hótel Borg.

  Nú er ég aftur farinn að steikja hamborgara á Hamborgarabúllu Tómasar, m.ö.o ég er kominn heim og heima er best.

  TOMMI SEGIR

  Pistill no.22 – Smellið! / Pistill no.21 – Smellið! / Pistill no.20 – Smellið! / Pistill no.19 – Smellið! / Pistill no.18 – Smellið! / Pistill no.17 – Smellið! / Pistill no.16 – Smellið! / Pistill no.15 – Smellið! / Pistill no.14 – Smellið! / Pistill no.13 – Smellið! / Pistill no.12 – Smellið! / Pistill no.11 – Smellið! / Pistill no.10 – Smellið! / Pistill no.9 – Smellið!/ Pistill no.8 – Smellið! / Pistill no.7 – Smellið! / Pistill no.6 – Smellið! / Pistill no.5 – Smellið! / Pistill no.4 – Smellið! / Pistill no.3 – Smellið! / Pistill no.2 – Smellið! / Pistill no.1 – Smellið!

  Auglýsing