Það eru ekki allir sem ná þessu. Haraldur Sigurðsson jarðvísindamaður er á frímerkjum í Mosambik, Tansaníu og Kongó.
—
Haraldur nam jarðfræði við Háskólann í Belfast og lauk doktorsprófi við Háskólann í Durham 1970. Mestallan sinn starfsaldur starfaði hann erlendis, lengst af sem prófessor við Háskólann í Rhode Island í Bandaríkjunum. Haraldur er í fremstu röð eldfjallafræðinga. Hann hefur birt, ýmist einn eða í samstarfi við aðra, mikilvægar greinar um niðurstöður rannsókna á stórum eldgosum, m.a. um gosið í Santorini (Minoan gosið) um 1600 fyrir Krist, Öskju 1875, Vesúvíusi 79 og eyðileggingu borganna Pompei og Herculaneum. Hann hefur einnig rannsakað og ritað um gosið í Tambora 1815, Krakatá 1883, Mount St. Helens 1980, El Chichon 1982, Nevado del Ruiz 1985, stórgos í Kötlu í lok síðasta jökulskeiðs (myndun Vedde gjóskunnar) og myndun Bishop túffsins í Long Valley öskjunni í Kaliforníu fyrir 760.000 árum. Hér á landi hefur hann komið að rannsóknum á gosinu í Lakagígum 1783-84 og Eyjafjallagosunum 2010, svo og að bergfræði gosbelta og úthafshryggja. Rannsóknir Haraldar á ummerkjum um árekstur loftsteina við jörð fyrir um 65 milljónum ára, á mörkum krítar og tertíer tímabilanna, vöktu mikla athygli en einnig hefur hann rannsakað tengsl loftslags og eldvirkni, einkum áhrif brennisteins sem berst upp í andrúmsloftið í eldgosum.