HAMBORGARI NEFNDUR EFTIR ÞÓRÓLFI

    Þórólfur Guðnason smitsjúkdómalæknir hefur fengið hamborgara nefndan í höfuðið á sé líkt og Bubbi, Bó og Laddi hafa fengið áður. Þetta er jólahamborgari Hamborgarafabrikkunnar sem hingað til hefur heitið Rúdolf en heitir nú Rúdólfur.

    “Rúdolf er heilagur hjá okkur á Fabrikkunni. Þessi hreindýraborgari hefur fylgt okkur frá upphafi og kemur í raun með jólin á hverju ári. Okkur fannst, í ljósi alls sem gengið hefur á undanfarna mánuði, vel við hæfi að þakka Þórólfi Guðnasyni sóttvarnarlækni hans fórnfúsa og góða starf, með því að endurskíra Rúdolf, honum til heiðurs. Hann hefur því fengið nafnið Rúdólfur. Það má eiginlega segja að þetta sé eins og að fá Fálkaorðuna frá Fabrikkunni,” segir Jói, talsmaður Gleðipinna sem reka Hamborgarafabrikkuna.

    Einstakur hreindýraborgari

    Rúdólfur er um margt merkilegur jólaborgari. Sjálft hreindýrakjötið er blandað með apríkósum og gráðaosti og glóðargrillað á funheitu grilli. Ofan á kjötið leggst svo trönuberjalauksulta, pikklað rauðkál, klettasalat og bræddur cheddar ostur. Rúdólfur er svo borinn fram með sætum frönskum og jólasnjó.

    Auglýsing