HALLDÓR “AFTRUKKAR”

  “Áslaug Arna hefur greinilega ekki húmor fyrir því ef ég reyni að gera að gamni mínu. Maður reynir að gera að gamni sínu en er líklega of stórkarlalegur í orðavali og karlagrobbi,” segir Halldór Jónsson verkfræðingur en skrif hans um kvennafar á menntaskólaböllum hér áður fyrr, sem Morgunblaðið endurprentaði, hafa vakið mikla athygli. Meðal annars Áslaugar Örnu ritara Sjálfstæðisflokksins og Halldór biður hana afsökunar:

  “Áslaug Arna stimplar mig því sem hinn versta dóna og rudda  vegna pistils sem ég setti á bloggið til að vekja athygli á því hvernig demókratar hundelta dómara sem Trump vildi skipa í Hæstarétt Bandaríkjanna fyrir eitthvað sem hann gerði í æsku sinni fyrir margt löngu.

  Áslaug skrifar:

  “Öðru hverju rekst maður á fólk sem hefur svo gamaldags viðhorf til samskipta kynjanna að maður trúir varla að því sé alvara. Það sem kemur kannski enn meira á óvart er að einhver sjái tilefni til að gera slíkum viðhorfum hátt undir höfði. Sumir reyna að réttlæta ýmiss konar ósæmilega hegðun og ruddaskap með þeim rökum að þetta hafi nú ekki þótt mikið mál hérna einu sinni. Því miður snúast slíkar réttlætingar oftast um forneskjulegt viðhorf til kvenna. Í fyrradag las ég stuttan pistil þar sem slík viðhorf voru höfð í flimtingum.

  Mér þótti verra að sjá að þessum orðum var hampað á síðum Morgunblaðsins.

  Höfundur pistilsins hugsar til baka til þeirra tíma þegar það þótt sjálfsögð hegðun að „tendra sig upp á brennivíni og Camel-smók“ og bjóða stelpunum upp og reyna „allt til að vanga þær og trukka og helst að komast í sleik“. Gefið er í skyn að svona hafi þetta bara verið og þar með eðlilegt.

  Veltum því í alvörunni fyrir okkur að jafnvel þó að þessi hegðun hafi verið algeng á árum áður, var hún þá eðlileg? Að vísa í gamla tíma með rökum um að svona hafi þetta verið réttlætir ekki ofbeldi eða kvenfyrirlitningu. Það minnir aðeins á þá staðreynd að á þeim tíma stigu brotaþolar ekki fram og sögðu ekki frá brotum eða ósæmilegri hegðun í sinn garð. Hegðun sem er ekki í lagi í dag var heldur ekki í lagi þá. Það hefur ekkert með pólitískan rétttrúnað að gera, heldur almenna virðingu fyrir fólki.

  Að standa gegn kynferðisbrotum hefur heldur ekkert að gera með pólitískan rétttrúnað. Ég kæri mig lítið um að menn blandi dólgslegri hegðun í garð kvenna inn í umræðu um pólitískan rétttrúnað og saki þá sem ekki hlæja að gömlum groddarasögunum um að hafa tapað sér í rétttrúnaði. Í kjölfar #metoo-byltingarinnar skrifaði ég pistil í þennan sama dálk í fyrra þar sem ég sagði að stærsti árangur þeirrar umræðu sem nú hefði skapast væri að þeir sem tileinkuðu sér ekki virðingu í samskiptum mundu að lokum dæma sjálfa sig úr leik.

  Það er óþarfi fyrir Morgunblaðið að skipta þeim aftur inn á. Einhverjum kann að finnast nóg komið af umræðu um #metoo, en það er ljóst að sú bylting er komin til að vera – og sem betur fer. Mögulega hefur gleymst að spyrja ömmur okkar hvernig þær upplifðu þá tíma þegar strákunum fannst eðlilegt að skvetta í sig brennivíni og reyna allt til að komast í sleik. aslaugs@althingi.is ”

  Ég átti engan þátt í því að Mogginn birti þetta á Staksteinum og var ekki spurður.

  Enn síður minnist ég þess að nokkurn tímann hafi komið upp eitthvað ofbeldismál stráka gagnvart stúlkum í minni skólatíð. Í þá daga gættu menn fyllstu háttvísi og virðingu og vissu að nei þýddi nei. Sá sem hefðði sýndi einhvern ruddaskap hefði ekki sloppið vel frá slíku í skólasamfélaginu og alls ekki meðal strákanna.

  Og dansæfingarnar voru siðsamar í alla staði þó mér finnist merkilegt núna að ekki hafi verið kveikt í skólanum með reykingunum sem þá tíðkuðust. Og illindi þekktust ekki það ég vissi.

  En sem sagt, aldrei vissi ég til neins óviðeigandi af hálfu stráka í garð stelpna og væri sjálfur óhræddur við frásagnir skólasystranna þó að ég sé ekki að sækjast eftir neinum  pólitískum frama hjá Trump eða álíka sjálfstæðismönnum.

  Enda var ég nú bara að reyna að vera sniðugur í ábyrgðarlausu bloggi mínu sem ég er víst ekki að smekk Áslaugar Örnu og þykir mér það miður að hafa stuðað hana svona sem var ekki meiningin.

  Auglýsing
  Deila
  Fyrri greinMOBY DICK TOURS
  Næsta greinSAGT ER…