GUÐMUNDUR FRANKLÍN TIL ALLS VÍS EINS OG DONALD TRUMP

  Það eru forsetakoningar framundan, nánar tiltekið 28. júní og það styttisti óðum í að það skýrist hvort sitjandi forseti Guðni Th. eða wannabe forseti, Guðmundur Franklín, verði næsti forseti hins íslenska lýðveldis.

  Eitt má Guðmundur Franklin eiga, hann er duglegur og eljusamur og svo er hann skírður í höfuðið á Benjamin Franklín. Hann er í hringferð um landið að kynna sig og málstað sinn og það yrði nú aldeilis viðsnúningur ef hann næði því að verða kjörinn. Halló Hafnarfjörður! Ætlar Guðni Th. að sitja þegjandi og hljóðalaus hjá og bíða þess sem verða vill? Guðni Th. er ekki vanur að slást en þar er Guðmundur Franklin á heimavelli.

  Guðni var kjörinn svona nánast óvart þarna 2016. Honum var teflt fram af einhverjum ósýnilegum öflum sem höfðu aðstöðu til að gera hann sýnilegan hérumbil á síðustu metrunum fyrir kosningar. Það þekktu fáir þennan mann enda fékk hann bara um 36% atkvæða. En nú vitum við að hann er viðkunnanlegur og flekklaus í embætti. Vill vera maður fólksins, einn af okkur. þeir sem munu kjósa Guðmund Franklín væru annarsvegar að lýsa óánægju sinni með litleysi Guðna og eins í þeirri vona að Guðmundur Franklin muni vísa í þjóðaratkvæði allskyns málum sem hann er ófeiminn að tjá sig um. En svo er spurning hvort hann geri það í tíma og ótíma, hægri vinstri, því sá kvóti er ekki endalaus. Aumingja Alþingi yrði vorkun að hafa yfir höfði sér mann sem sífellt er að hafa skoðanir á störfum þess, manns sem væri til alls vís rétt eins og Donald Trump.

  Guðmundur Franklín er hvatvís á köflum, vel gefinn, þokkalega menntaður og snöggur að hugsa. Hann og Björgólfur Thor komu til mín á Sprengisand sumarið 1986 og máluðu bílaplanið. Gerðu það vel, voru snaggaralegir og gengu hreint og öruggir til verks. Þegar við vorum að semja um verkið þá bauð ég þeim greiðslu sem þeim fanst ansi lág og varð Guðmundi þá að orði: “Þetta er ekki upp í nös á ketti.”

  En hvort hann er rétti maðurinn á Bessastaði er önnur saga. Ég þekki engan sem þekkir Guðmund sem ætlar að kjósa hann. Enginn er spámaður í eigin föðurlandi.

  TOMMI SEGIR

  Pistill no.23 – Smellið! / Pistill no.22 – Smellið! / Pistill no.21 – Smellið! / Pistill no.20 – Smellið! / Pistill no.19 – Smellið! / Pistill no.18 – Smellið! / Pistill no.17 – Smellið! / Pistill no.16 – Smellið! / Pistill no.15 – Smellið! / Pistill no.14 – Smellið! / Pistill no.13 – Smellið! / Pistill no.12 – Smellið! / Pistill no.11 – Smellið! / Pistill no.10 – Smellið! / Pistill no.9 – Smellið!/ Pistill no.8 – Smellið! / Pistill no.7 – Smellið! / Pistill no.6 – Smellið! / Pistill no.5 – Smellið! / Pistill no.4 – Smellið! / Pistill no.3 – Smellið! / Pistill no.2 – Smellið! / Pistill no.1 – Smellið!

  Auglýsing