GLEÐISTEINAR EYÐILAGÐIR

  Pálína og Sandra og nokkrir steinanna sem eftir eru.

  Pálína Þorsteinsdóttir kennari og íbúi í Vættaborgum Grafarvogi vill láta gott að sér leiða:

  “Stundum fæ ég skrýtnar hugmyndir, en skemmtilegar þó (að mínu mati). Á morgungöngu minni einn morguninn skaut þessari hugmynd í kollinn á mér og í gær nýttum við Sandra Bassí þurran veðurglugga í framkvæmd. Við fórum niður í fjöru og fundum steina sem við skrifuðum á falleg og jákvæð orð. Dreifðum þeim svo meðfram göngustígnum á strandlengjunni í Grafarvogi Norður. Ætlunin er að gleðja fólk á göngu. Gleðispreð. Kæru grannar ég vona að steinarnir fái að standa og að þið njótið.

  Nú er búið að skemma þetta allt.

  Af 14 steinum sem ég hefði átt að sjá á göngu minni í morgun, voru tveir heilir og þrír brotnir, hinir 9 voru hvergi sjáanlegir. Allt í allt voru 23 steinar settir á strandlengjuna og vona ég að eitthvað af þeim standi enn.

  En þar sem ég er mjög bjartsýn og jákvæð manneskja þá vona ég bara að sá/sú sem tók steinana sem horfnir eru hafi þurft á þeim að halda og skreyti nú garðinn sinn með þeim. Þetta var skemmtilegt verkefni sem við mæðgur létum verða af og það hitti í mark (hjá flestum) og þá erum við ánægðar þótt ég hefði viljað fá að njóta þess sjálf að ganga stíginn og lesa á þá aftur og aftur. Ást og friður.”

  Auglýsing