GERVILEIÐTOGAR

  "... ég held að „leiðtogi“ geti aldrei orðið starfstitill."
  “Mér finnst svo hallærisleg þessi þróun þar sem æ fleiri fyrirtæki auglýsa eftir „leiðtogum“.
  Svona svæfum við orðin og gerum þau merkingarlaus,” segir Sverrir Norland rithöfundur og útgefandi:
  “Plús hvað það er hlægilegt að vinnumarkaðurinn sé að tútna út af „leiðtogum“ þegar við vitum öll að vinnumarkaðurinn er meira og minna hannaður í kringum undirgefni og hlýðni.
  Flestir fara í skóla þar sem markmiðið er að fá góðar einkunnir og sækja svo um vinnu og fá þar „yfirmenn“ og þurfa að taka mark á þeim og berjast fyrir þeim hagsmunum sem þeir fá borgað fyrir að vernda.
  Hluti af slíkri undirgefni er svo einmitt að taka við stöðu þar sem maður fær stimpilinn „leiðtogi“. Einhver segir þér að þú sért leiðtogi … svo að þú þarft ekki að gera neitt sem breytir þér í raunverulegan leiðtoga.
  Sem sagt: ég held að „leiðtogi“ geti aldrei orðið starfstitill. (Sorrí ef 50% vina minna bera nú þennan starfstitil.)
  En … okkur vantar einmitt fleiri raunverulega leiðtoga og stjórnendur. Mér detta í hug nokkrir – á sviði loftslagsmála til dæmis – en okkur vantar miklu fleiri slíkar raddir – í stjórnmálum, í listum, í viðskiptalífinu. Fólk sem þorir að segja það sem það hugsar frekar en að vera bara málpípur viðskipta- og stjórnmálaafla. Þannig ryðja alvöru leiðtogar nýjar brautir.
  Við þurfum fólk sem er leiðtogar frekar en í dagvinnu sem leiðtogar.
  Já, takið það og troðið því í andlitin á ykkur! Þetta var sunnudagshugvekja dagsins. Og nú ætla ég í kaffi til mömmu og pabba.”
  Auglýsing