“Einkareknir fjölmiðlar sækja um ríkisstyrk upp á tæpan milljarð en 400 milljónir eru til úthlutunar;” segir Markús Örn Antonsson fyrrum útvapsstjóri ríkisins og borgarstjóri í Reykjavík og vitnar í frétt síns gamla vinnustaðar:
“Fjölmiðlar eru sem kunnugt er kröfuharðir um að fá aðgang að upplýsingum vegna þess að “almenningur eigi heimtingu á að fá að vita”, ekki síst þegar um meðferð almannafjár er að ræða. Almenningur á þess vegna rétt á að vita heilmikið um rekstur 22 fjölmiðla, sem sækja um næstum milljarð í styrki úr ríkissjóði. Áður fyrr á árunum voru jafnaðarlega birtar niðurstöður úr viðurkenndum könnunum um áhorf og hlustun á ljósvakamiðla og lestur dagblaða. Þessum málum voru gerð góð skil og fjölmiðlar smjöttuðu á frásögnum af misjöfnu gengi hjá keppinautunum. Dagskrárþættir eða lesefni blaða fékk gúmoren ef vinsældunum þótti ekki til að dreifa. Lítið fer fyrir slíkri umfjöllun nú um stundir. Það skyldi aldrei vera, að þögnin sé talin brýnna hagsmunamál en “skyldan til að upplýsa almenning.”